Vika 2: Dagbók bæjarstjóra 2023

Dagbók bæjarstjóra dagana 9.-15. janúar 2023.

Þéttbókuð vika að baki.

Vikan byrjaði í bæjarráði. Það var frekar þunn dagskrá miðað við undanfarna fundi. Við eyddum dágóðum tíma í að hugsa um verkefni sem við gætum sótt um í Fiskeldissjóð, sem er samkeppnissjóður þeirra sveitarfélaga þar sem fiskeldi er stundað í sjókvíum. Sveitarfélögin hafa viljað breyta þessu fyrirkomulagi og fá tekjurnar beint inn í sinn fjárhag til að þurfa ekki að vera með einhvern betlistaf í formi umsókna. En þessu verður ekki breytt núna þannig við vinnum með núverandi kerfi í ár en vonandi verðum við búin að ná fram þessum breytingum fyrir næsta ár. Ég átti svo fund með stjórn Fiskeldissjóðs ásamt öðrum fiskeldissveitarfélögum og stjórn sjávarútvegssveitarfélaga til að ræða áherslur sjóðsins.


Arna og Hafdís með Hrönn Garðarsdóttur, skólastjóra Grunnskólans á Suðureyri. 

Vinnudagur á Suðureyri. Við Hafdís sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs tókum vinnudag á Suðureyri. Við byrjuðum á að heimsækja grunnskólann þar sem Hrönn Garðarsdóttir skólastjóri tók á móti okkur. Við heilsuðum líka upp á starfsfólk og nemendur sem er sérstaklega skemmtilegt. Ég hef grun um að ég eigi eftir að fá bréf eða boð um að koma á kynningu frá nemendum sem tekur á því helsta sem þau vilja sjá að gert sé.

Við fórum líka í leikskólann þar sem Svava Rán leikskólastjóri tók á móti okkur. Það er fróðlegt fyrir mig að heyra við hvað þau eru að fást við á hverjum degi. Við gómuðum Svövu í uppvaskinu en hún gaf sér samt góðan tíma til að spjalla við okkur. Það vantar semsagt starfsfólk í leiksskólann á Suðureyri. Miðað við öll faðmlögin sem Hafdís fékk á meðan á heimsókn okkar stóð þá er án efa mjög gott að vinna á leikskólanum.


Í kaffi í Sunnuhlíð.

Það vildi svo skemmtilega til að þegar við vorum að keyra fram hjá Sunnuhlíð var alveg var að detta í kaffitíma. Við snarstoppuðum auðvitað og kíktum í kaffi og hittum þar eldri borgara. Rósa sem sér um félagsstarfið töfraði fram þessar fínu veitingar og við fórum sælar heim frá Suðureyri.

Það var vinnufundur á Teams um Velferðaþjónustu Vestfjarða sem sveitarfélögin eru að vinna saman í að móta undir forystu KPMG.


Arna Lára og Jón Árnason, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð, á Kaffivagninum í Reykjavík.

Ég fór til Reykjavíkur um miðbik vikunnar til að taka þátt í fundahrinu um raforkuöryggi og þjóðgarð á Vestfjörðum. Við Einar Kristinn og Jón Árnason fengum það verkefni frá umhverfis-, auðlinda og loftslagsráðherra að velta upp kostum og koma með tillögur hvernig við nálgumst þetta markmið að tryggja raforkuöryggi og að koma upp þjóðgarði á sunnanverðum Vestfjörðum. Við áttum fundi með fjölmörgum aðilum sem hafa mögulega skoðun á hvernig mál þróast.


Bók Elvu Bjargar Einarsdóttur um gönguleiðir í Barðastrandarhreppi.

Við funduðum með Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Orkustofnun og HS orku vegna Hvalárvirkjunar, Arctic Hydro vegna Austurgilsvirkjunar, Landvernd, Landsneti og Elvu Björgu Einarsdóttir doktorsnema í ferðamálafræði frá Seftjörn á Barðaströnd. Elva færði okkur fallega bók sem hún gaf út um gönguleiðir á Barðaströnd. Við erum afar vel nestuð í áframhaldandi vinnu. Á milli funda fórum við Jón á Kaffivagninn til að ræða sameignlega mál okkar sveitarfélaga.

Framundan er önnur sneisafull vika.