Vika 18: Dagbók bæjarstjóra 2023
Dagbók bæjarstjóra dagana 1.-7. maí 2023.
En ein fjögurra daga vinnuvikan að baki. Alls konar verkefni í vikunni. Bæjarráð og bæjarstjórn funduðu. Helst til umræðu voru skipulagsmál og mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir landsbyggðina.
Við Hafdís og Gunna frá skóla- og tómstundasviði funduðum með forsvarsfólki Hjallastefnunnar um áframhaldandi samning vegna reksturs leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði, en núverandi samningur er útrunninn fyrir þó nokkru síðan.
Hilmar hafnarstjóri og Axel, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs, kynna tillögur að nýju skipulagi fyrir Sundabakka.
Skemmtiferðaskipasumarið er hafið, en fyrsta skipið kom í vikunni og var með viðkomu á Suðureyri og Ísafirði. Af því tilefni var haldinn fundur með hagaðilum á höfninni. Þessi fundur var fyrst og fremst hugsaður til að deila upplýsingum og eiga samráð við hagsmunaaðila. Í ár eru bókuð 206 skip eins og staðan er núna en þeim gæti fækkað eitthvað, eins og gengur og gerist. Slíkur fjöldi gesta og skipa hefur umtalsverð áhrif á íbúa og atvinnulíf ásamt þeim framkvæmdum sem eru í gangi á Sundabakkanum. Það þarf að reyna skipuleggja flæðið á höfninni þannig að þetta geti gengið upp. Hafnarstjórn er þessu til viðbótar að vinna að stefnumótun um komur skemmtiferðaskipa.
Gunnlaugur Jónasson opnaði sögusýninguna. Hér er hann með Bergþóri skólastjóra og Arnheiði Steinþórsdóttur sem vann að sýningunni.
Tónlistarskóli Ísafjarðar á 75 ára afmæli í ár og eru fjölmargir viðburðir af því tilefni á árinu. Einn af viðburðunum er opnun sögusýningar sem var í vikunni en Arnheiður Steinþórsdóttir á veg og vanda að hendi. Ég mæli með að kíkja á sýninguna og sjá í raun hversu mikil áhrif skólinn hefur haft á bæjarbraginn og ekki síst hvað hann hefur gefið af sér marga tónlistarmenn. Á sama tíma var íbúafundur um ofanflóðavarnir á Flateyri sem ég gat því miður ekki setið, þar sem ég er bara í einriti.
Mánaðarlegur fundur Vestfjarðastofu með bæjar- og sveitastjórnarfulltrúum var í vikunni. Þar voru rædd drög að menntastefnu Vestfjarða og farið yfir það helsta sem er að frétta í hverju sveitarfélagi.
Arna Lára og Hrönn.
Við gengum frá ráðningu á nýjum verkefnisstjóra á Flateyri en við vorum einstaklega lánsöm að fá Hrönn Garðarsdóttur til starfa. Hrönn starfar í dag sem skólastjóri á Suðureyri ásamt því að vera formaður hverfisráðsins á Flateyri svo hún er öllum hnútum kunnug. Hrönn tekur við af Hjörleifi Finnssyni sem lýkur farsælum störfum í lok mánaðarins.
Ég og Gylfi formaður bæjarráðs drukkum kaffi með þingflokki Viðreisnar, en þau voru í Vestfjarðayfirreið. Það var mjög hressandi að fara yfir það helsta sem er í gangi hjá okkur.
Starfshópur um þjóðgarð og orkumál átti skýrsluskriftarfund í Bolungarvík með Bláma í lok vikunnar sem endaði á góðum hádegisverði á Einarshúsi.
Aðalfundur Háskólaseturs Vestfjarða var haldinn í vikunni. Það er auðvitað mikill uppgangstími hjá Háskólasetrinu og stúdentagarðarnir að taka á sig mynd. Það kom fram á fundinum að gert er ráð fyrir að fyrra húsið komist í notkun um miðjan september og seinna húsið um áramót. Virkilega gaman að heyra hvað starfsemin er að dafna. Efnahagsleg áhrif starfseminnar eru einnig umtalsverð.