Vika 16: Dagbók bæjarstjóra 2023
Dagbók bæjarstjóra dagana 17.-23. apríl 2023, frá Portó í Portúgal
Enn ein stutta vikan liðin með sumardeginum fyrsta. Sumir elska þessi fimmtudagsfrí en svo eru aðrir sem vilja færa fimmtudagsfríin fram á föstudaga og lengja helgarnar. Vikan var óvenju stutt hjá mér þar sem ég var í fríi á föstudaginn.
Vikan byrjaði á efnismiklum fundi bæjarráðs. Þaðan er helst að frétta að við vorum að ræða árshlutauppgjör ársins 2022, en fyrstu niðurstöðurnar eru þær að árið er að koma betur út en gert var ráð fyrir. Það út af fyrir sig afar góðar fréttir því við vorum í krefjandi aðstæðum með vaxandi verðbólgu og óvænt útgjöld sem ekki hægt var að komast hjá. Þrátt fyrir það tókst stjórnendum bæjarins að skila þessari niðurstöðu. Ekki munaði nema 600 þúsundum á áætlun og niðurstöðu! Þetta eru óendurskoðaður tölur en fyrri umræða um ársreikning er fyrirhuguð 4. maí nk.
Mennta- og barnamálaráðuneytið var með áhugaverðan fund í vikunni um úthlutun og ráðstöfun fjármuna til reksturs grunnskóla. Fulltrúar ráðuneytisins, Þórður og Ragnar, voru með fínar kynningar og umræðupunkta um leiðir til að ráðstafa fjármunum í kerfinu. Þarna voru komnir saman skólastjórnendur og framkvæmdastjórar sveitarfélaga, og ég segi fyrir mitt leyti að það var gaman að eiga þetta spjall við allt þetta fagfólk. Ég lærði þó nokkuð.
Haldin var Teamsfundur í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga en þar vorum við fyrst og fremst að hugsa um fjárhagsstöðu sveitarfélaga, en eins og margir hafa orðið varir við í umræðunni þá eru mörg sveitarfélög að berjast í bökkum fjárhagslega og ytra rekstrarumhverfi ekki að hjálpa til.
Grein í dagblaðinu Tímanum, 19. júlí 1980.
Bæjarstjórn fundaði í vikunni. Þar voru nokkur stór mál til umræðu. Bæjarstjórn samþykkti að fara í útboð á lagningu gervigras á báða vellina á Torfnesi. Þetta mál hefur verið í undirbúningi undanfarnar vikur og mikil samstaða hefur verið um mikilvægi verksins. Þessi framkvæmd mun gjörbylta allri aðstöðu fyrir knattspyrnufólk á öllum aldri. Grasvöllurinn var vígður 1980 svo það er löngu kominn tími á hann.
Einnig var samþykkt að tillögu hafnarstjórnar að fara í tvær hafnarframkvæmdir. Annars vegar frekari lenging á Sundabakka, en með því verður hægt að festa skipin betur við pollanna (með því að gera garðinn beinni) auk þess sem aukið landrými fæst með framkvæmdinni. Það var líka samþykkt að gera fyrirstöðugarð út frá Norðurtanganum til að hefta sandburð inn Sundin. Staðan er sú að sker er farið að myndast við Mávagerð með þeir hættu sem því fylgir og er þetta einnig farið að hafa áhrif á útrásir.
Ég sat fund umhverfis- og framkvæmdarnefndar í vikunni en þar voru fjölbreytt mál á dagskrá. Þar var verið að ræða m.a. gróðursetningu á skjólbelti við Tunguhverfið (við leikvöllinn) sem er komin á dagskrá vegna frumkvæðis íbúa í hverfinu. Leikvöllurinn er mjög berangurslegur og það væri mikið til bóta að setja niður tré. Krían er líka afar ágeng á þessu svæði og það verður fróðlegt að sjá hvað hún gerir þegar komin eru komin tré. Íbúar í Tunguhverfi hafa verið duglegir að senda á mig tölvupósta síðustu daga til að minna okkur á að krían er væntanleg til landsins og spyrja (skiljanlega) hvaða aðgerðir við hyggjumst fara í til að fæla hana í burtu. Við erum með nokkrar hugmyndir sem við viljum prófa í vor, ekkert víst að þær virki, en reynum samt.
Refa- og minkaveiðar, sorphirðing, stóri plokkdagurinn og hreinsun Hornstranda komu líka við sögu í nefndinni.
Kveðja frá Portó!