Vika 15: Dagbók bæjarstjóra 2023
Dagbók bæjarstjóra dagana 10.-16. apríl 2023.
Fossavatnsgönguvikunni lokið. Fossvatnsgangan er alveg einstakur íþróttaviðburður sem setur mark sitt á bæinn. Fyrstu keppendur sáust á vappi fyrir páska og komu víðs vegar frá heiminum auk fjölmargra heimamanna sem tóku þátt. Þetta er fjölmennasta skíðaganga landsins en það voru yfir 500 keppendur skráðir. Ég hef tekið þátt í göngunni nokkrum sinnum og hugsunin um kökuhlaðborðið og Fossavatnsgönguballið kemur manni alltaf aðeins lengra. Markmiðið mitt er alltaf það sama, klára gönguna áður en kökuhlaðborðið byrjar og klára ballið. Það náðist.
Nanný Arna Guðmundsdóttir og Arna Lára að hefja göngu á laugardaginn.
Vikan var í styttri kantinum enda ekki nema fjórir dagar. Vikan hófst á innanhúsfundi með Hilmari hafnarstjóra, Tinnu upplýsingafulltrúa og Axel, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, til að undirbúa okkur undir komur skemmtiferðaskipa. Það stefnir í metár og ljóst er að nokkrir dagar verða ansi þungir, t.d. þann 7. júlí en þá má búast við allt að 10.000 gestum auk áhafna. Það verður mikið álag á höfninni þessa stóru daga og hætta á að það myndist núningur milli atvinnulífs, skemmtiferðaskipa og íbúa, auk þess að við erum í hafnarframkvæmdum. Þannig að þetta þarf allt að hugsa og reyna að koma í veg fyrir árekstra. Við ætlum að halda fund með hagsmunaaðilum á höfninni fyrir vertíðina og reyna sem við best getum að láta þetta allt ganga upp.
Búnaður í sláturhúsi Arctic Fish í Bolungarvík er að hluta kominn upp.
Ég átti fund með Daníel frá Arctic Fish og Víkingi frá Arnarlaxi til að ræða innviðauppbyggingu í tengslum við eldið í Arnarfirði. Okkur Víkingi var boðið að skoða nýja sláturhúsið hjá Arctic sem er verið að reisa í Bolungarvík. Þetta er alveg heljarinnar bygging og flókin framkvæmd sem komin er mjög langt á veg. Það var gaman að sjá að stóru kerfin (og tankarnir) og vélarnar eru byggðar af Baader. Það voru líka ákveðin tímamót í Víkinni í vikunni þegar íbúar urðu 1.000, markmið sem búið var að stefna á í nokkurn tíma. Til hamingju Bolvíkingar!
Það var haldið fjölmennt orkuþing í vikunni en þar voru haldin mörg áhugaverð erindi um stöðu orkumála í fjórðungnum. Stórra aðgerða er þörf en ráðast þarf í að tvöfalda vesturlínu og að auka raforkuframleiðslu á Vestfjörðum til að geta tekið þátt í orkuskiptunum og unnið að frekari atvinnuuppbyggingu.
Fjórðungsþing var svo í framhaldinu af orkuþinginu. Það voru svo sem engin stórtíðindi þaðan. Hefðbundin aðalfundarstörf með skýrslu stjórnar og afgreiðslu ársreiknings. Haldin eru tvö fjórðungsþing á ári og það sem er haldið á haustin er viðameira, en það var samþykkt núna var að gera umhverfismál og loftslagsmál að aðalviðfangsefni haustþingsins.
Annars var nú ekki mikið meira markvert í dagbókinni nema að ég tók þátt í viðtali nema hjá Háskólanum á Bifröst sem voru að rannsaka áhrif tveggja tónlistarhátíða á nærsamfélög. Annars vegar er það Aldrei fór ég suður og svo Bræðslan á Borgarfirði eystri. Hvað mig varðar eru áhrifin alveg óumdeild hvað varðar ímynd og efnahag, þó ég þekki minna til Bræðslunnar.