Vika 14: Dagbók bæjarstjóra 2023

Örn Elías, Mugison, og Kristján Freyr, rokkstjóri, setja Aldrei fór ég suður.
Örn Elías, Mugison, og Kristján Freyr, rokkstjóri, setja Aldrei fór ég suður.

Dagbók bæjarstjóra dagana 3-9. apríl 2023.

Skíðavikan, Aldreivikan eða páskavikan eða hvað sem við köllum líðandi viku, er ein af hápunktum viðburða í Ísafjarðarbæ og nærliggjandi sveitarfélögum. Þetta ár var enginn undantekning og ég held að margir íbúar þurfi núna nokkra daga til að jafna sig af allri félagsverunni og gestaganginum. Ég heyrði fleygt um helgina að það hefði verið fjögur þúsund gestir í bænum, það er ekkert smáræðis fjöldi. Það er ekki annað að heyra en að hátíðarhöldin hafi farið vel fram og fólk hafi skemmt sér fallega.


Karamelluregnið á furðufatadeginum á Skíðaviku heppnaðist vel, en í fyrsta sinn var karamellunum skotið úr byssu, sem smíðuð var af starfsmanni skíðasvæðisins.

Það þurfti að grípa til nokkurra B, C og D plana vegna snjóleysis og austanáttar sem hentar ekki flugi en það var alveg aðdáunarvert að fylgjast með skipuleggjendum Skíðavikunnar og Aldrei fór ég suður bjarga málunum. Þetta fólk á risastórt hrós skilið og klapp á bakið. Það er ekkert smá mikils virði fyrir Ísafjarðarbæ að hafa svona öflugt fólk í sínum röðum.

Aldrei fór ég suður fór fram í 19. sinn sýnir alveg ótrúlega seiglu og elju skipuleggjanda, en það er meira minna sama fólkið sem stendur að baki hátíðinni í öll þess skipti. Dagskráin í ár var ekkert slor og hvert og eitt atriði alveg frábært svo ég tali ekki um allar þessar listakonur sem stigu á stokk. Alltaf nær Aldrei að toppa sig aftur og aftur. Get varla beðið eftir tuttugustu hátíðinni.

Sprettgangan var á sínum stað við setningu Skíðavikunnar.
Sprettgangan var á sínum stað við setningu Skíðavikunnar.

Skíðavikan fór líka einstaklega vel fram þrátt fyrir snjóleysið. Sprettgangan, lúðrasveitin og Gummi Hjalta bæjarlistamaður settu tóninn fyrir helgina. Smekkfull dagskrá alla vikuna sem teygði sig út um allt stór Ísafjarðarsvæðið, tónlist, leiklist, bingó og alls konar. Ég komst ekki yfir nema hluta af því sem mig langaði að gera.

Vinnuvikan var annars nokkuð hefðbundin, en tók svo sannarlega mið af Skíðaviku.

Bæjarráð fundaði að venju en það voru rétt fjögur mál á dagskrá sem er óvenju lítið. Sirrý, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu og fyrrum samstarfskona mín hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, kom til fundar við bæjarráð og sagði hún okkur meðal annars frá því að Vestfjarðastofa var að fá tvo Evrópustyrki – sem eru frábærar fréttir og er til þess að efla starf þeirra.


Fulltrúar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í Næturfossavatninu, sem fram fór miðvikudaginn fyrir páska.

Næsta hátíð er svo bara handan við hornið en Fossavatnsgangan hefst á fimmtudaginn og eigum við von á fjölmörgum gestum sem ætla spreyta sig á flottustu göngu landsins.