Vika 13: Dagbók bæjarstjóra 2023

Frá vörumessu Menntaskólans á Ísafirði.
Frá vörumessu Menntaskólans á Ísafirði.

Dagbók bæjarstjóra dagana 27. mars-2. apríl

Bæjarráð og bæjarstjórn funduðu sitthvorn daginn í byrjun vikunnar, sem er óvanalegt. Bæjarráð fundaði á sínum hefðbundna tíma á mánudagsmorgni en bæjarstjórnarfundur var haldinn síðdegis á þriðjudegi sem er uppbrot. Bæjarstjórn fundar alla jafna fyrsta og þriðja fimmtudag í hverjum mánuði en framundan eru nokkur fimmtudagsfrí sem byrja á skírdag og það þarf að aðlaga fundardagskrá bæjarstjórnar að því.

Bæjarráð fór vel yfir forsendur útboðs vegna uppbyggingar á Torfnesi, en bæjarráð leggur áherslu á að gervigras verði lagt á báða vellina svo að framkvæmdin nýtist sem flestum. Markmiðið er að gera sem mest fyrir það fjármagn sem markað er í fjárhagsáætlun. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að farið verði í útboð. Planið er að byrja á uppbyggingunni eftir tímabilið í haust og að nýir vellir verði klárir fyrir leiktíðina 2024.

Bæjarstjórn ræddi ofanflóðavarnir fyrir ofan Flateyri og samþykkti að auglýsa skipulagslýsingu vegna endurbættu varnanna. Við vonumst til að skipulagsmálin verði klár fyrir sumarið svo hægt verði að hefjast handa. Það hefur verið mikil umræða um ofanflóðavarnir í kjölfar snjóflóðanna fyrir austan, skiljanlega. Vonandi verður tryggt fjármagn í þessar mikilvægu framkvæmdir. Í okkar sveitarfélagi eru það endurbættar varnir á Flateyri og varnir í Hnífsdal sem eru eftir.

Í heimsókn hjá Vestfirskum verktökum.
Í heimsókn hjá Vestfirskum verktökum.

Bæjarstjórn úthlutaði einbýlahúsalóð á Fjarðargötu á Þingeyri sem er mjög gleðilegt en síðast var byggt hús á Þingeyri á síðustu öld. Þetta eru afar jákvæðar fréttir og allt á uppleið.
Einnig var úthlutað lóð að Sindragötu 4a á Ísafirði, en þar hyggjast Vestfirskir verktakar reisa fjölbýlishús. Það er mikill hugur í fyrirtækinu en það var einnig verið að úthluta iðnaðarlóðum til þeirra á Skeiði. Við Sigga Júlla, formaður skipulags- og mannvirkjanefndar, heimsóttum Vestfirska í vikunni ásamt Axel og Muggi, starfsmönnum umhverfis- og eignasviðs. Garðar og Bobbi, ásamt Einari frá Hlé arkitektum kynntu okkur hugmyndir sínar að fjölgun íbúða á Skutulsfjarðareyrinni.

Samningur við Viðburðastofu Vestfjarða undirritaður.
Samningur við Viðburðastofu Vestfjarða undirritaður.

Bæjarstjórn samþykkti verksamning við Auðlist ehf., sem flestir þekkja sem Viðburðastofu Vestfjarða um umsjón og framkvæmd ýmissa hátíðahalda á vegum Ísafjarðarbæjar árin 2023-2025. Fyrsta verk Ragnar Heiðars og Auðlistar er Skíðavíkan sem hefst innan örfárra daga.

Frá vörumessu MÍ

Frá vörumessu MÍ.

Einn af skemmtilegum viðburðum vikunnar var án efa vörumessa Menntaskólans á Ísafirði, en þar kynntu nemendur Ólafar Dómhildar nýsköpunarhugmyndir og vörur. Ég fékk það erfiða verkefni að vera í dómnefnd. Alma sem er með sápur sem er m.a. gerðar úr hrossaþara fengu sérstök verðlaun fyrir frumlegasta sölubásinn og Poddi sem gengur út á uppblásna hettu fékk verðlaun fyrir öflugasta sölustarfið. Það var gaman að sjá hversu margir nemendahópar voru komnir með tilbúnar vörur sem þeir seldu grimmt á messunni, en það var t.d. hægt að kaupa tvær gerðir af sápum, ís, kerti og nuddolíu.

Ég mætti ársfund Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og fékk tækifæri til að segja ársfundargestum frá Velferðarþjónustu Vestfjarða og þeim breytingum sem eru framundan í málaflokknum.

Atriði nemenda á árshátíð GÍ voru glæsileg að vanda.
Atriði nemenda á árshátíð GÍ voru glæsileg að vanda.

Ég fór á árshátíð Grunnskólans á Ísafirði þar sem þemað var íþróttir. Helsta íþrótt mín á svona viðburðum er að reyna að geta hver á barnið auk þess að hafa gaman af skemmtuninni.

Ég hlustaði á fræðslufund um sjálfbærni markmið Sameinuðu þjóðanna á netinu sem haldinn á vegum Sambandsins. Ég má til með að hrósa Sambandinu fyrir áhugaverða fundi undanfarið, og þá sérstaklega um hringrásahagskerfið. Allt á netinu og svo eru þeir teknir upp svo hægt er að horfa á þá hvenær sem er.

Verkefnisstjórn Allra vatna til Dýrafjarðar fundaði í vikunni til að undirbúa íbúafund sem haldinn verður í maí. Þar munum við fara yfir framgang verkefnisins og hvað tekur við.

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga fór fram á Grand hóteli í Reykjavík föstudaginn 31. mars 2023.
Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga fór fram á Grand hóteli í Reykjavík föstudaginn 31. mars 2023.

Landsþing Sambandsins var haldið í lok vikunnar. Að þessu sinni voru kjaramál, húsnæðismál og móttaka flóttafólks í brennidepli. Yfirleitt eru þetta mjög gagnleg þing fyrir sveitastjórnarfólk og ekki síst til að efla tengslin og þetta þing var engin undantekning hvað það varðar.

Nýkjörin stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga.
Nýkjörin stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga.

Aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga var haldin í kjölfarið á landsþinginu. Það voru á dagskrá hefðbundin aðalfundarstörf og stjórnarkjör. Ég var þar í framboði til stjórnar og hlaut kosningu, og hef þá mitt sjöunda stjórnarár. Ásamt mér voru kjörin þau Halldóra Káradóttir frá Reykjavík, Guðmundur Baldvin frá Akureyri/Kelduhverfi, Elliði Vignisson frá Ölfusi og Kristinn Jónasson frá Snæfellsbæ sem var jafnframt var kjörinn stjórnarformaður.

Sonur bæjarstjóra með 2023 árgerðina af húfu og peysu Aldrei fór ég suður.
Sonur bæjarstjóra með 2023 árgerðina af húfu og peysu Aldrei fór ég suður.

Annars er Skíðavikan framundan og erum við farin að sjá fyrstu merki páska. Búið að opna Aldrei búðina og þar er heldur betur hægt að kaupa varning til að styðja við hátíðina.