Vika 11: Dagbók bæjarstjóra 2023
Dagbók bæjastjóra dagana 13.-19. mars 2023.
Inflúensan tekur ekki tillit til þess að fólk þarf að mæta í vinnuna svo vikan mín hófst ekki fyrr en á þriðjudag. Ég missti þar af leiðandi af mjög efnismiklum bæjarráðsfundi þar sem rætt var um númerslausa bíla við Heilbrigðiseftirlitið, vökvunarkerfi á væntanlegan gervigrasvöll, sorphirðu, myglu í Grunnskólanum á Suðureyri svo eitthvað sé nefnt.
Ég átti spjallfund með starfshópi um Velferðarþjónustu Vestfjarða þar sem við fórum yfir hvar málið væri statt hjá sveitarfélögunum og hvort það væri eitthvað sem hefði komið fram sem taka þyrfti afstöðu til.
Við Axel, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs, og Smári, verkefnisstjóri á sviðinu, funduðum með stjórn Fiskeldissjóðs og fengum tækifæri til að fylgja eftir umsóknunum okkar í sjóðinn.
Við Bryndís bæjarritari áttum fund með Helga, formanni hverfisráðsins á Þingeyri, og Birtu blábankastjóra þar sem við fórum yfir þau mál sem brenna mest á Dýrfirðingum. Þetta eru mjög góðir fundir þar sem við getum deilt upplýsingum og farið yfir það helsta. Strax í kjölfarið á þeim fundi áttum við fund með Hjörleifi verkefnisstjóra á Flateyri með sama markmiði; að fara yfir það helsta á Flateyri.
Ég átti fund með sérfræðingum innanríkisráðuneytisins um grænbók um húsnæðismál. Þar fórum við yfir stöðuna á húsnæðismálum á Vestfjörðum og hvernig grænbókin kemur þar inn. Með mér á fundinum voru þau Þórdís bæjarstjóri í Vesturbyggð og Jón Páll bæjarstjóri í Bolungarvík ásamt Aðalsteini og Magga, starfsmönnum Vestfjarðastofu.
Ég fékk tækifæri til að fylgja eftir umsögn Ísafjarðarbæjar um sameiningu Fjölmenningarseturs og Vinnumálastofnunar með velferðarnefnd Alþingis. Þar leggjum við áherslu á að starfsstöðin verði efld og starfsmönnum fjölgað.
Það var bæjarstjórnarfundur í vikunni. Bæjarstjórn samþykkti þjónustusamning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólki og skuldbindur Ísafjarðarbæ að taka á móti allt að 40 einstaklingum. Ísafjarðarbær og Súðavíkurhreppur standa saman að móttökunni og kemur fólk til að búa í báðum sveitarfélögum. Samningurinn felur í sér fjárstuðning frá ríkinu svo að hægt sé að veita flóttafólki stuðning og þjónustu á meðan það fótar sig í nýjum heimkynnum.
Seinni umræða um Velferðarþjónustu Vestfjarða fór fram í bæjarstjórn. Átta sveitarfélög á Vestfjörðum ætla að vera með að móta nýja velferðarþjónustu og auka samstarf í málaflokknum. Strandabyggð ætlar að leita samstarfs til Skagafjarðar.
Ný aðstaða fyrir aðgerðastjórn almannavarna í Guðmundarbúð á Ísafirði.
Við opnuðum nýtt almannavarnarrými í Guðmundarbúð. Þar mun aðgerðarstjórn almannavarna hafa aðstöðu þegar á þarf að halda. Aðstaðan er mjög góð og hafa félagar í Björgunarfélagi Ísafjarðar verið öflugir að græja og gera. Þetta er mikill munur fyrir aðgerðastjórnina að fá svona góða vinnuaðstöðu þó andinn á slökkvistöðinni hafi verið góður, þá vantaði ýmislegt upp á sem nú er búið að bæta úr. Það var gaman að sjá hversu margir mættu á opnuna. Félagar úr björgunarsveitarsveitum víðsvegar á Vestfjörðum, Landhelgisgæslan, almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, Neyðarlínan og fleiri.
Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði setti söngleikinn Rocky Horror á svið í Edinborgarhúsinu.
Skemmtihápunktur vikunnar var án nokkurs vafa uppsetning leikfélags MÍ á Rocky Horror. Þvílík skemmtun.