Vika 1: Dagbók bæjarstjóra 2023

Fallegt vetrarveður í Dýrafirði.
Fallegt vetrarveður í Dýrafirði.

Dagbók bæjarstjóra í viku 1, 2.-8. janúar 2023.

Árið byrjaði vel og vinnuvikan hófst strax á mánudegi eftir áramót! Það tók alveg þrjá kaffibolla að koma undirritaðri í gang á nýju ári.

Við Axel, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs, tókum vinnudag á Þingeyri. Það heppnaðist mjög vel og margir komu til viðtals og óformlegs spjalls. Það er á stefnuskránni að gera þetta markvisst. Við Hafdís, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs, stefnum á að vera á Suðureyri í komandi viku (eigum eftir að finna okkur samverustað) og við Bryndís bæjarritari verðum á Flateyri fyrstu vikuna í febrúar.

Bæjarstjórnarfundur var haldinn á fimmtudaginn. Það voru ekki mörg mál á dagskrá en þýðingarmikil engu að síður. Við afgreiddum sérreglur fyrir úthlutun byggðakvóta sem við sendum í framhaldinu til matvælaráðuneytisins til samþykktar. Bæjarstjórn samþykkti að vera með nánast óbreyttar reglur frá fyrri árum að því undanskildu að farið er fram á löndunarskyldu í hverju byggðarlagi. Í fyrri reglum mátti landa innan sveitarfélags vegna sérstakra aðstæðna þar sem ekki var hægt að landa á Flateyri, þar sem höfnin var full af bátum eftir flóðið 2020 en nú á það ekki við lengur. Reglur um byggðakvóta er umdeilanlegar og ólík sjónarmið og hagsmunir að baki. Bæjarstjórnin lagði upp með að horfa í markmið laganna um að byggðakvóti eigi að efla útgerð og vinnslu í hverju byggðarlagi.


Mögulegar útfærslur á landfyllingunni.

Það var líka samþykkt í bæjarstjórn að setja tillögu að aðalskipulagsbreytingu er varðar íbúabyggð á landfyllingu norðan Eyrar í auglýsingu. Þetta er einn þáttur í því lögformlega og lýðræðislega ferli sem málið er í. Auglýsingarferlið er sex vikur og gefst íbúum þar tækifæri til að skila inn athugasemdum sem verður fjallað um efnislega. Persónulega finnst mér umræðan um landfyllinguna hafa þroskast eftir því sem meira kjöt er sett á beinin og það verður áhugavert að heyra sjónarmið íbúa hvað þetta varðar. Hvet alla til að skoða tillöguna vel þegar hún verður birt á vef Ísafjarðarbæjar og senda inn sínar athugasemdir.

Við samþykktum líka að endurskoða deiliskipulag á Suðurtanga á Ísafirði. Skipulags- og mannvirkjanefnd lagði til við bæjarstjórn að íbúðarbyggðin sem þar var skipulögð verði látin víkja fyrir léttum iðnaði og safnasvæði og að útivist verði gefið meira rými í skipulaginu.


Frá formlegu kveðjukaffi Mugga hafnarstjóra.

Við kvöddum Mugga hafnarstjóra formlega í vikunni með kaffisamsæti og blómum.

Bæjarstjóri með forsvarsmönnum Arnarlax.

Ég átti fund með Birni Hembre, Víkingi og Jóni Garðari, forsvarsmönnum Arnarlax. Við ræddum ýmislegt tengt fiskeldinu, leyfismálin í Djúpinu, strandsvæðaskipulagið ofl.


Forsvarsmenn Tinda ásamt bæjarstjóra og sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs.

Ég átti líka fund með Helga, Óla og Sæma úr björgunarfélaginu Tindum til að ræða viðhald og tækifæri fyrir félagsheimilið í Hnífsdal en Tindar eru með rekstrarsamning við Ísafjarðarbæ og hafa séð um húsið. Það er með félagsheimilið í Hnífsdal eins og fleiri eignir Ísafjarðarbæjar að það vantar upp á viðhaldið og við verðum að reyna standa okkur í því.


Grétar Smári, efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar og Dagur, íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2022.

Hápunktur vikunnar var útnefning íþróttamanns Ísafjarðarbæjar 2022. Þetta er alltaf hátíðleg og skemmtileg samkoma þar sem saman er komið okkar besta og efnilegasta íþróttafólk. Dagur Benediktsson skíðagöngukappi var kjörinn íþróttamaður Ísafjarðarbæjar enda átti hann frábært síðasta ár og t.a.m. á hann besta tíma Íslendings í Vasagöngunni sænsku. Gaman er líka að segja frá því að mamma hans, Stella Hjalta, var útnefnd íþróttakona Ísafjarðarbæjar fyrir 40 árum. Árið 2022 var gott ár hjá SFÍ þar sem Grétar Smári Samúelsson skíðagöngumaður var valinn efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar. Dagur og Grétar Smári hafa líka verið að gera það gott í hlaupunum. Frábærir báðir tveir. Það voru líka veittar þrjár hvatningar/þakkar viðurkenningar fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþróttasamfélagsins. Það voru þær Jóhanna Odds frá SFÍ, Harpa Björns íþróttafélaginu Ívari og Signý Þöll frá blakdeild Vestra sem fengu þær viðurkenningar. Það var líka skemmtileg nýung að allir þeir sem hafa tekið þátt í landsliðsverkefnum voru líka heiðraðir, það var dágóður hópur.

Annars gleðjast margir yfir snjósendingunni. Það hefur vantað aðeins upp á snjósöfnun til að geta opnað skíðasvæðið í Tungudal en hægt var að opna á Seljalandsdal fyrir gönguskíðafólk í vikunni, mörgum til mikillar gleði og ánægju.

Þegar þetta er skrifað er búið að loka vegunum til Flateyrar og Súðavíkur vegna snjóflóðahættu, og varðskipið Þór er í Dýrafirðinum til taks ef á þarf að halda. Allur er varinn góður.