Verndarsvæði í byggð og friðlýsing Skrúðs staðfest af ráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði á föstudag staðfestingu á að Neðstikaupstaður og elsti hluti byggðar á Skutulsfjarðareyri verði verndarsvæði í byggð. Við sama tilefni var undirrituð friðlýsing á skrúðgarðinum Skrúð í Dýrafirði.
Neðstikaupstaður er elsta húsaþyrping landsins sem enn stendur, og er fjara sem liggur vestan við hana einnig hluti verndarsvæðisins. Húsaþyrpingin stóð upphaflega á mjóum tanga, sem var syðsti hluti Eyrarinnar, og voru húsin fjögur reist á árunum 1757 til 1784. Skutulsfjarðareyrin skiptist í Miðkaupstað og Hæstakaupstað, og er þar um að ræða samfellda og þétta byggð húsa á efra svæðinu á Eyrinni. Elst húsanna er Faktorshúsið sem reist var árið 1788.
Innan svæðanna beggja eru 11 friðlýst hús og tugir aldursfriðaðra húsa og telst heildarvarðveislugildi svæðisins hátt hvað varðar byggingalist, menningarsögu, umhverfi, upprunaleika og ástand.
Friðlýsing Skrúðs er gerð að tillögu Minjastofnunar Íslands og er í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til Skrúðs í heild samkvæmt upphaflegu skiplagi og tegundaflóru, auk hlaðinna vegghleðslna umhverfis garðinn og innan marka hans, garðhliðs úr hvalbeini, gosbrunns og gróðurhúss og annarra sögulegra mannvirkja. Í samræmi við 22. gr. minjalaga er síðan 100 m friðhelgunarsvæði umhverfis útmörk garðsins.
„Það er mér mikil ánægja að staðfesta tillögu sveitarfélagsins að gera þessa einstöku, sögulegu heild húsbygginga á svæðunum tveimur að verndarsvæði,“ segir Guðlaugur í frétt á vef umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. „Það er ekki síður ánægjulegt að friðlýsa þann einstaka og stórmerkilega skrúðgarð sem Skrúður í Dýrafirði er. Það ber vott um mikinn metnað að garðurinn hafi haldið gildi sínu í meira ein öld.“