Vel heppnaður landsfundur Upplýsingar
Dagana 23.-24. september fór landsfundur Upplýsingar, fagfélags á sviði bókasafns-og upplýsingafræða, fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Skipulagning fundarins var í höndum nefndar sem skipuð var starfsfólki bókasafnanna á Ísafirði; Eddu Björgu Kristmundsdóttur, Bókasafninu Ísafirði, Pernillu Rein, Bókasafni Háskólaseturs Vestfjarða/Bókasafni Menntaskólans á Ísafirði, Robertu Šoparaite, Bókasafninu Ísafirði og Rannveigu Halldórsdóttur, Bókasafni Grunnskólans á Ísafirði.
Landsfundurinn er fagráðstefna sem félagið Upplýsing stendur fyrir annað hvert ár, og í þetta sinn var yfirskrift ráðstefnunnar Í upplýstu umhverfi. Aðaláherslan dagskrár var á áskoranir og tækifærin í upplýsingafræðum og hvernig hægt er að nálgast starfið með sjálfbærni að leiðarljósi.
Lykilfyrirlesarar voru Ulla Leinikka frá Oodi safninu í Helsinki, og Rebekkah Smith Aldrich frá USA sem er frumkvöðull varðandi sjálfbærni í bókasöfnum, en auk þeirra voru einnig fyrirlesarar frá norðanverðum Vestfjörðum með erindi á dagskrá.
Yfir 100 gestir sóttu Ísafjörð heim í tengslum við ráðstefnuna og að sögn skipuleggjenda voru þeir sérstaklega ánægðir með að fá loksins tækifæri til að koma saman eftir langt Covid-hlé.