Uppskeruhátíð vegna innleiðingar þróunarverkefnis um snemmtæka íhlutun í leikskólum

Í vetur hafur starfsfólk leikskóla Ísafjarðarbæjar unnið að innleiðingu þróunarverkefnis um snemmtæka íhlutun með áherslu á málþroska og læsi barna. Innleiðingin hefur gengið vel og af því tilefni var haldin uppskeruhátíð með starfsfólki Menntamálastofnunar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði í gær, fimmtudaginn 22. júní.

Markmið verkefnisins er að leikskólabörn nái hámarksárangri hvað varðar mál, tal og boðskipti og undirbúning hvað varðar lestur og læsi. Unnið er að því að efla þekkingu, skilning og færni starfsfólks skólanna á málörvun og málþroska í samræmi við hugmyndafræði um snemmtæka íhlutun og heildstæða skólastefnu. Kennarar, leiðbeinendur og stjórnendur leikskóla Ísafjarðarbæjar hafa unnið verkefnið undir leiðsögn Halldóru G. Helgadóttur, verkefnastýru og talmeinafræðingnum Ásthildi Bj. Snorradóttur sem þróaði verkefnið. Unnin hefur verið handbók fyrir hvern leikskóla sem myndar ramma og leiðbeiningar um allt það starf sem lýtur að snemmtækri íhlutun í málþroska.

Guðrún Birgisdóttir, skóla- og sérkennslufulltrúi Ísafjarðarbæjar, setti uppskeruhátíðina í gær og hrósaði stjórnendum leikskólanna fyrir einstaka þrautsegju í verkefnavinnunni. Katrín Ósk Þráinsdóttir, verkefnastjóri hjá Menntamálastofnun, og Sverrir Óskarsson, sviðsstjóri matssviðs Menntamálstofnunar, voru viðstödd og færðu stjórnendum leikskólanna bókagjafir fyrir hönd stofnunarinnar.

Þess má geta að verkefnið var tilnefnt til Íslensku menntaverðlaunanna árið 2022.

Ísafjarðarbær þakkar starfsfólki leikskólanna fyrir frábæra vinnu við þróunarverkefnið. Hér fyrir neðan má sjá myndir frá uppskeruhátíðinni.