Uppgjör annars ársfjórðungs: Rekstrarafgangur 143 m.kr. hærri en áætlað
Niðurstaða rekstrarreiknings Ísafjarðarbæjar á öðrum ársfjórðungi 2024 var send Hagstofu Íslands þann 2. ágúst og kynnt í bæjarráði þann 12. ágúst. Annar ársfjórðungur sýnir nú rekstrarafgang A- og B-hluta upp á 796 m.kr. fyrir janúar-júní. Fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerir ráð fyrir rekstrarafgangi upp á 653 m.kr. Rekstrarafgangur er því 143 m.kr. hærri en áætlað er.
Rekstrartekjur A- og B-hluta eru hærri en áætlun gerir ráð fyrir sem nemur 240 m.kr. og rekstrargjöld eru 47 m.kr. hærri en í áætlun. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru 50 m.kr. hærri en áætlun gerir ráð fyrir.
Helstu ástæður þessarar jákvæðu niðurstöðu eru auknar þjónustutekjur hafna Ísafjarðarbæjar, sem nema tæpum 112 m.kr. Þá eru skatttekjur 51,4 m.kr. hærri en áætlun gerir ráð fyrir; útsvarstekjur tímabilsins eru 1.578 m.kr. samanborið við áætlun upp á 1.527 m.kr. Einnig eru greiðslur frá Jöfnunarsjóði 6 m.kr. hærri en áætlað var fyrir.