Uppbyggingarsjóður Vestfjarða – styrkir til verkefna í Ísafjarðarbæ

Úthlutað hefur verið úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða vegna verkefna sem koma til framkvæmda á árinu 2022 og hlutu fjölmörg verkefni í Ísafjarðarbæ styrk að þessu sinni. Meðal annars fékk Edinborgarhúsið á Ísafirði 2,5 m.kr. rekstrarstyrk til þriggja ára en Skóbúðin hversdagssafn, Kómedíuleikhúsið og Kol & salt/Gallerý Úthverfa hlutu einnig rekstrarstyrki. 

Þá fór hæsti styrkurinn til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna til verkefnisins Gráðaostagerð Önundarfjarðar, en einnig hlutu styrk úr sama flokki verkefni Elíasar Guðmundssonar um nýtingu á birkiskógum Vestfjarða, Vitalína Kertahússins á Suðureyri og verkefni Satu Raemö, Daytripster - sýndarveruleikaupplifun á Vestfjörðum.

Fjögur hjólaverkefni úr Ísafjarðarbæ hlutu einnig styrk í flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna; Cycling Westfjords sem Halldóra Björk Norðdahl stendur fyrir, The Westfjords Way Challenge sem Tyler James Wacker stendur fyrir, verkefni Skútusiglinga, Hjólað um Vestfirði - Westfjords the Cycle Way og verkefni hjólreiðadeildar Vestra, Markaðsetning Ísafjarðar sem áfangastað fjallahjólarans.

Fjölmargir styrkir voru einnig veittir til menningarverkefna í Ísafjarðarbæ, meðal annars til Edinborgarhússins, Act Alone, Tónlistarskóla Ísafjarðar og fyrir verkefnin Í garðinum hjá Láru á Þingeyri, Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða á Ísafirði og Flatbirds Art Walk á Flateyri. Þá fékk Kómedíuleikhúsið styrk vegna leikritsins Gústi Guðsmaður, Fryderic Chopin tónlistarfélagið fékk styrk fyrir F. Chopin tónlistarhátíð á Ísafirði, Dagrún Matthíasdóttir hlaut styrk fyrir verkefnið List í Alviðru í Dýrafirði og Kol & salt hlaut styrk fyrir tveimur verkefnum á Ísafirði; sýningunni Valse Triste og viðburðum hjá ArtsIceland.

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða er hluti af Sóknaráætlun Vestfjarða og styrkir nýsköpun, uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarf á Vestfjörðum. Fagráð og úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs eru kosin á Fjórðungsþingi Vestfirðinga. Yfirlit yfir alla styrki úr sjóðnum má skoða hér.

Ísafjarðarbær óskar styrkhöfum til hamingju og góðs gengis.