Undirritun samkomulags um lóðaúthlutun í Dagverðardal
Ísafjarðarbær og Fjallaból ehf. undirrituðu í dag samkomulag um lóðaúthlutun í Dagverðardal í Skutulsfirði á reit sem kallast Í-9 í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar og er reitnum úthlutað í einu lagi.
Í samkomulaginu er kveðið á um að allt að 50 frístundahús verði byggð á reitnum og eru þau bæði hugsuð til sölu og útleigu til ferðamanna. Verkefnið kallar á talsverða skipulagsvinnu, en breyta þarf aðalskipulagi og vinna deiliskipulag og um þá vinnu sjá M11 arkítektar.
Verkinu verður áfangaskipt og samkvæmt framkvæmdaáætlun verða 15 hús reist í fyrsta áfanga og vonir standa til að framkvæmdir geti hafist á næsta ári.
Að sögn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra, er það mikið gleðiefni fyrir Ísafjarðarbæ að geta fylgt þessu verkefni úr hlaði en mikil vöntun hefur verið á frístundahúsum til útleigu í sveitarfélaginu.
Svæði Í-9 er afmarkað með bláum kassa á myndinni.