Umsögn Ísafjarðarbæjar um frumvarp til laga um lagareldi

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri, hefur sent inn til atvinnuveganefndar Alþingis umsögn Ísafjarðarbæjar um frumvarp til laga um lagareldi

Í umsögninni kemur meðal annars fram að löngu er orðið tímabært að efla lagaumgjörð um lagareldi og þeim markmiðum frumvarpsins fagnað að skapa eigi skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis. Umsögnina má lesa í heild sinni hér að neðan en bæjarstjórn bókaði einnig vegna málsins á 534. fundi sínum þann 16. maí. 

„Fiskeldi í sjó hefur haft mikil og góð áhrif á Vestfirði. Atvinnulífið blómstrar, fólki hefur fjölgað jafnt og þétt og aukið líf hefur færst í fasteignamarkaði á svæðinu. Vestfirðir eru eftirsóknarverður staður til að búa á.
Atvinnutekjur á Vestfjörðum af fiskeldi voru til að mynda 2,6 milljarðar árið 2023 en aðeins 400 milljónir árið 2014. Stöðugri fólksfækkun var loks snúið við árið 2016 og hefur fólki á Vestfjörðum síðan fjölgað um 6%. Þá hefur fiskeldisgjaldið staðið undir beinni og brýnni uppbyggingu í þeim samfélögum þar sem fiskeldi er stundað. Með tilkomu hærra fiskeldisgjalds munu þau framlög aðeins aukast á næstu árum.
Bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar leggja áherslu á áframhaldandi ábyrga verðmætasköpun í sátt við umhverfið á Vestfjörðum, í þágu íbúa Ísafjarðarbæjar. Við styðjum við ábyrgt fiskeldi í sjó og viljum styrkja þær stoðir sem atvinnugreinin byggir á.
Þá skiptir sköpum að ný löggjöf um lagareldi hljóti brautargengi á Alþingi þar sem markmiðið er að styrkja regluverk, rannsóknir og eftirlit þannig að skilyrði séu fyrir sjálfbærum vexti lagareldis.
Allar upphrópanir um að stöðva fiskeldi í sjó á Íslandi dæma sig sjálfar.“

Umsögnin Ísafjarðarbæjar um frumvarp til laga um lagareldi 

„Ísafjarðarbær fagnar því frumvarpi til laga um lagareldikomið fram og þakkar samráð við undirbúning þess.

Ísafjarðarbær er fylgjandi þeim markmiðum sem sett eru fram í frumvarpi til laga um lagareldi þar sem skapa á skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu. Löngu er orðið tímabært að efla lagaumgjörð um þessa atvinnustarfsemi. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa bent á til margra ára að styrkja þurfi stjórnsýslu greinarinnar og efla eftirlit með henni, auk þess að tryggja að ávinningur greinarinnar skili sér nærsamfélaganna. Vel hefur verið staðið að vinnu við frumvarpið, og ber þá sérstaklega að nefna úttekt Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi og skýrslu Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis, sem eru mikilvæg gögn við vinnslu frumvarpsins.

Mikilvægt er að sjókvíaeldið fái að þróast og að þekking á atvinnugreininni verði efld með auknum rannsóknum og menntun. Samfélög á Vestfjörðum eiga mikið undir að atvinnugreinin vaxi enda hefur orðið algjör viðsnúningur í atvinnulífi og byggðaþróun á Vestfjörðum sl. ár með tilkomu uppbyggingar sjókvíaeldis. Greinin er orðin mikilvæg stoð í efnahagslífi landsins. Skýrsla Boston Consulting Group staðfestir tækifæri og mögulegan vöxt í framtíðinni en til að það geti orðið þá þarf ramminn og umgjörð greinarinnar að vera skýr.

Rannsóknir, eftirlit og menntun í nærsamfélögum sjókvíaeldis

Ísafjarðarbær ásamt fleiri sveitarfélögum hefur barist fyrir því störf tengd rannsóknum, eftirliti og menntun verði efld og byggð upp í nærumhverfi atvinnugreinarinnar. Með nýju frumvarpi um lagareldi er tekið á þessum mikilvægu þáttum en gerð er krafa um að störfin verði í nærumhverfi greinarinnar. Það er gríðarlega mikilvægt að efla rannsóknir, menntun og eftirlit og hún sé stunduð í sátt við umhverfi og samfélag og lúti ströngustu umhverfiskröfum. Með staðbundnum störfum í nærumhverfi greinarinnar er hægt að stunda virkt eftirlit, byggja upp þekkingu og stuðla að framþróun í sjókvíaeldissamfélögum.

Að þessu sögðu þarf samhliða að byggja greininni jákvæð skilyrði til sjálfbærar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu. Í allri reglusetningu gagnvart greininni er mikilvægt að það eftirlit og þau viðurlög sem mælt er fyrir um valdi því ekki að það verði stöðnun í atvinnugreininni heldur verði henni gert kleift að byggjast upp með sjálfbærum hætti til framtíðar.

Mikilvægt er að taka vel á afgreiðslu mála er tengjast dýravelferð eins og gert er í frumvarpinu, svo að fyrirtæki og eftirlitsaðilar geti tekið betur á málum. Einfaldaðar málsmeðferðir og skilvirkir verkferlar skipta sköpum þegar t.a.m. koma upp atburðir eins og lúsasmit.

Varðandi grein 37 sem kveður á um búnað sem er ekki í notkun þá þarf að vera alveg skýrt að fiskeldisfyrirtækin beri alla ábyyrgð á að fjarlægja og farga búnaði sem ekki er lengur í notkun og ekki eigi að veita undanþágu hvað þetta ákvæði varðar.

Samfélagssjóður

Ísafjarðarbær fagnar nýjum samfélagssjóði sjókvíaeldis sem hefur það hlutverk að styrkja sjókvíaeldisbyggðir og þar með samfélög og stpðir atvinnulífs á þeim svæðum. Það hefur verið ákalla sveitarfélaga að fjármunum verði úthlutað beint til sjókvíaeldisbyggða í stað umsóknakerfis og komið er til móts við þau sjónarmið í frumvarpinu. Nýtt fyrirkomulag mun jafnframt auka fyrirsjáanleika og einfalda áætlunargerð og framkvæmdir sveitarfélaga. Ísafjarðarbær gerir athugasemd við að frumvarpið gerir ráð fyrir minni fjármunum til sjókvíaeldissveitarfélaga en núverandi fyrirkomulag í gegnum Fiskeldissjóð. Gríðarleg þörf er fyrir innviðafjárfestingu og viðhaldsskuld hefur safnast upp í gegnum áratugi og ljóst má vera að styrkja þarf innviði þessara sveitarfélaga. Nærsamfélög sjókvíaeldis verða að fá að njóta ávinnings uppbyggingar fiskeldis og tengdrar starfsemi.

Fram kemur í greinargerð frumvarpsins á bls. 77 að samfélagssjóður muni njóta framlaga af fjárlögum sem svarar til þriðjungstekna af gjaldi sem gert er ráð fyrir að innheimtist í ríkissjóð en það færi betur á að þetta kæmi fram í lagafrumvarpinu sjálfu svo enginn vafi liggi á þessu, jafnframt er gerð athugasemd við skiptinguna en sveitarfélög á Vestfjörðum hafa farið fram á að stærri hlutur fari til þeirra, allavega fyrst um sinn meðan unnið er að stórum innviðaverkefnum.

Umhverfis- og menntasjóður sjókvíaeldis

Ísafjarðarbær lýsir yfir stuðningi við umhverfissjóð og menntasjóð sjókvíaeldis. Mikilvægt er að efla rannsóknir og menntun í greininni, svo hún fái að blómstra á sterkum grunni þekingar og rannsókna, fyrir umhverfið og samfélögin sem á henni byggja. Þá vill Ísafjarðarbær undirstrika mikilvægi þess að menntunar- og rannsóknartækifæri verði til staðar í nærsamfélögum sjókvíaeldis.

Samfélög þar sem fiskeldi er stundað eiga mikið undir að greinin fái að vaxa og dafna, í sátt við umhverfið. Þess vegna er það mikilvægt að frumvarpið verði að lögum sem fyrst til að byggja undir sterkari stoðir og skýrari ramma utan um lagareldi.

Ísafjarðarbær lýsir sig reiðubúinn til að fylgja umsögninni eftir sé þess óskað.“