Umsögn Ísafjarðarbæjar um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri, hefur sent inn í samráðsgátt umsögn Ísafjarðarbæjar um drög að frumvarpi um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Markmið frumvarpsins er að stuðla að markvissari og réttlátari úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, einfalda skipulag sjóðsins og stuðla að því að hann fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.

Í umsögninni kemur fram að mikilvægt sé að Jöfnunarsjóður sinni með raunverulegum hætti því hlutverki sjóðsins að jafna útgjaldaþarfir og skatttekjur sveitarfélaga. Sérstök áhersla er lögð á þær áskoranir sem sveitarfélög með fleiri en einn byggðarkjarna standa frammi fyrir hvað varðar þjónustu og samgöngur.

Umsögnin í heild sinni:

„Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar framkomnu frumvarpi sem hefur það að markmiði að stuðla að markvissri og réttlátari úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Einfaldari útreikningar og bætt gæði jöfnunar eru jákvæð.

Aðstæður sveitarfélaga landsins eru afar ólíkar og því mikilvægt að Jöfnunarsjóður sinni með raunverulegum hætti því mikilvæga hlutverki að jafna útgjaldaþarfir og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tekur undir þá áherslu sem birtist í tillögunum um markvissa jöfnun, og að jöfnunarkerfið styðji áfram við bakið á meðalstórum sveitarfélögum og þeim sveitarfélögum sem hafa fleiri en einn þéttbýliskjarna og flóknar útgjaldaþarfir. Bent er á að aðstæður fjölkjarnasveitarfélaga eru misjafnar m.t.t. samganga. Í sumum er eingöngu um láglendisvegi milli byggðarkjarna að ræða en annars staðar eru fjallvegir á milli kjarnanna. Þetta þýðir að oft þarf að halda úti meiri þjónustu í „afskekktari“ byggðarkjörnum þar sem samgöngur eru erfiðari, í stað þess að þjónusta sé sótt að mestu leyti í einn meginkjarna. Taka þarf tillit til þessara þátta í kerfinu.

Jafnframt má horfa til nýs framlags vegna höfuðstaðaálags, en önnur sveitarfélög utan Akureyrar og Reykjavíkurborgar eru í dag einnig að veita mikla og fjölþætta félagslega þjónustu sem taka mætti tillit til.“