Umsögn Ísafjarðarbæjar um breytingar á lögum um veiðigjald

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri, hefur sent inn umsögn í samráðsgátt stjórnvalda vegna frumvarps um breytingar á lögum um veiðigjald.
Í frumvarpinu er mælt fyrir um breytingu á skráðu aflaverðmæti í tilteknum nytjastofnum við útreikning veiðigjalds, þannig að það endurspegli betur raunverulegt aflaverðmæti og þar með réttlát auðlindagjöld fyrir aðgang að auðlindinni. Samhliða því eru lagðar til breytingar á frítekjumarki vegna, meðal annars, áhrifa á litlar- og meðalstórar útgerðir.
Í umsögn Ísafjarðarbæjar kemur meðal annars fram að sveitarfélagið sé ekki á móti sanngjörnu afgjaldi fyrir auðlindir sjávar og fagnar aukinni innviðauppbyggingu. Hins vegar er sett stórt spurningamerki við frumvarpið vegna mögulegra afleiðinga þess fyrir sjávarútvegssveitarfélög. Sagan sýni að róttækar breytingar á lagaumhverfi sjávarútvegs geti haft slæm áhrif á byggðarlög á landsbyggðinni og tillagan um lagabreytingu beri vott um skort á skilningi á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu og stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Þá er skortur á greiningargögnum um þessi áhrif gagnrýndur. Að lokum er stuttum umsagnarfresti um tillöguna harðlega mótmælt og gerð krafa um lengri tíma til að sveitarfélög geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri.
Umsögnin í heild:
„Ísafjarðarbær er ekki ósammála því að útgerðir greiði sanngjarnt afgjald fyrir notkun á auðlindum sjávar. Þá eru fyrirheit um stóraukna innviðauppbyggingu jákvæð. Bærinn setur þó stórt spurningamerki við þetta frumvarp.
Umrædd breyting getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútvegssveitarfélög sem reiða sig á greinina til atvinnu og tekjuöflunar. Þrátt fyrir þessa óvissu fyrir sveitarfélög hafa engin gögn verið lögð fram um áhrif tillögunnar á landsbyggðina né einstök sveitarfélög sem er með öllu óásættanlegt. Er þetta einnig í andstöðu við 129. gr. sveitarstjórnarlaga sem kveður á um að fara eigi fram sérstakt mat á áhrifum lagabreytinga á fjárhag sveitarfélaga.
Sagan hefur sýnt að róttækar breytingar á atvinnuveginum geta haft slæm áhrif á byggðarlög á landsbyggðinni. Ísafjarðarbær telur tillöguna bera vott um skort á skilningi á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu og stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Hækkun veiðigjalda að þessu marki getur ekki aðeins haft mikil áhrif á rekstrarforsendur fyrirtækja og samspil veiða og vinnslu, heldur einnig á fjölda samfélaga vítt og breitt um landið og er Ísafjarðarbær engin undantekning þar. Sem dæmi þá er vægi sjávarútvegs í útsvarsgrunni Ísafjarðarbæjar 2024, fiskveiðar 9,1% og fiskvinnsla 11,9% byggt á gögnum Hagstofu Íslands.
Ísafjarðarbær gerir athugasemdir við þann stutta umsagnarfrest sem veittur var, þ.e. 10 dagar, sérstaklega í ljósi þess að engin greiningargögn eru til staðar. Ómögulegt er fyrir sveitarfélagið að greina áhrif innan þess tímaramma til að senda inn greinargóða umsögn. Því gerir Ísafjarðarbær skýlausa kröfu að umsagnarfrestur verði lengdur til að gefa öllum sveitarfélögum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Ísafjarðarbær lítur svo á að hér sé enn annað gjald sem getur ógnað stöðugleika byggðar á landsbyggðinni, en nýlega hafa borist fréttir af því að innviðagjald á skemmtiferðaskip verði óbreytt sem hefur hlutfallslega mikil neikvæð áhrif á landsbyggðinni.“