Tónleikar til heiðurs Maríu Callas

Tónlistarfélag Ísafjarðar býður upp á fallega tónleika til heiðurs Maríu Callas, einni frægustu sópransöngkonu allra tíma.
Tónleikarnir verða komandi sunnudag þann 29. apríl kl. 18:00 í Hömrum.

Sópransöngkonan Hrund Ósk Árnadóttir, sem er stjúpdóttir Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur, ætlar að flytja fyrir okkur þær aríur sem María Callas varð hvað frægust fyrir á sínum tíma en upptökur hennar lifa enn góðu lífi í nútímasamfélagi. Einnig fáum við að hlýða á undurfögur ljóð eftir R. Strauss. Meðleikari Hrundar er Kristinn Örn Kristinnsson, nánari upplýsingar um hann koma síðar.

Þetta eru 2. áskriftartónleikar félagsins á yfirstandandi starfsári. Áskriftarkort félagsins gilda á tónleikana, en einnig eru seldir miðar við innganginn. 
Miðaverð er kr. 3.000, en kr. 2.000 fyrir eldri borgara og öryrkja, en ókeypis er fyrir  skólafólk 20 ára og yngri.

Hrund Ósk er íslensk sópransöngkona sem býr og starfar í Berlín. Hún tók burtfararpróf frá Söngskólanum í Reykjavík árið 2009 og hlaut meistarapróf frá hinum virta Hanns Eisler-tónlistarskóla í Berlín árið 2014. Hrund sækir einnig einkatíma hjá bandarísku
sópransöngkonunni Janet Williams og bandaríska söngkennaranum David Jones. Þau kenna samkvæmt hinum svokallaða sænsk-ítalska skóla í söngtækni og er Hrund um þessar mundir að byggja upp sitt eigið söngstúdíó í Berlín þar sem hún kennir sömu tækni.
Hrund er mjög virk í leikhússenunni í Berlín og hefur tekið þátt í fjölda uppsetninga þar, bæði á samtímaverkum og eldri verkum, til dæmis í Tischlerei í Deutsche Oper í Berlín og Neukölln-óperunni. Hún syngur einnig ljóðatónlist og tekur til dæmis sem ljóðasöngkona þátt í The Berlin Song Festival í apríl 2018. Næsta verkefni Hrundar er að syngja í nýju stykki sem sett verður upp í Neukölln-óperunni í Berlín og byggir á prósaljóði Rainers Maria Rilke, „Die Weise von Liebe und Tod des Cornets Christoph Rilke” eða „Ljóð um ást og dauða riddarans Christophs Rilke“.
Heima á Íslandi hefur Hrund sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hún fór með hlutverk Næturdrottningarinnar í Töfraflautunni þegar sveitin setti hana upp á tónleikum árið 2010. Hrund er fjölhæf söngkona og var einnig lengi vel atkvæðamikil í íslensku djasssenunni. Hrund vann til verðlauna í alþjóðlegu Komitas-söngkeppninni árið 2014 og komst í undanúrslit í áströlsku Elizabeth Connell Price-keppninni árið 2016.