Tónleikar í Hömrum
Tónleikarnir " . . . sem félli snær . . . " með þeim Hönnu Dóru Sturludóttur sópran og Snorra Sigfúsi Birgissyni píanóleikara eru 1. áskriftartónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar starfsárið 2018/2019. Tónleikar þessir eru hluti að mikilli hátíðarhelgi tengdu 70 ára afmæli Tónlistarskóla Ísafjarðar og Tónlistarfélags Ísafjarðar. Tónleikarnir verða í Hömrum sunnudaginn 14.október kl.20:00.
Miðar á tónleikana verða seldir við innganginn. Miðaverð er 3000 kr., en 2000 kr. fyrir eldriborgara og öryrkja. Ókeypis er fyrir skólafólk 20 ára og yngra.
Hanna Dóra og Snorri flytja nýjar útsetningar á þjóðlögum úr nágrannasveitum hvers tónleikastaðar. Á Ísafirði munu þau flytja nýjar útsetningar á lögum tengdum Vestfjörðum en þar á meðal má finna "Barnagælur frá Bolungarvík".
Hanna Dóra Sturludóttir stundaði söngnám í Reykjavík og í Berlín og útskrifaðist með viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur. Á ferlinum hefur hún sungið hátt í 50 óperuhlutverk í mörgum helstu óperuhúsum Þýskalands og Íslensku Óperunni. Á Íslandi hefur hún auk þess haldið fjölda ljóðatónleika og sungið Vínartónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Salon Islandus. Hún hefur tvisvar fengið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna; nú síðast fyrir hlutverk Eboli í Don Carlo en fyrir það hlaut hún Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins 2014. Hanna Dóra kennir söng í Söngskóla Sigurðar Demetz og Listaháskóla Íslands.
Snorri Sigfús Birgisson hefur starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og stjórnandi. Hann hefur samið einleiksverk, söngverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist og sinfónísk verk auk þess að útsetja fjöldan allan af íslenskum þjóðlögum. Hann er félagi í CAPUT hópnum.