Tónleikaárið hefst í Hömrum
Tónleikaárið hjá Tónlistarfélagi Ísafjarðar hefst laugardaginn 1. september klukkan 17 með tónleikum Kristins Sigmundssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur í Hömrum.
Kristinn er einn ástsælasti söngvari íslensku þjóðarinnar fyrr og síðar, hann hefur komið fram í flestum stærstu tónlistar- og óperuhúsum heims en þar má t.d. nefna La Scala í Mílanó, Ríkisóperuna í Vínarborg, Þjóðaróperuhúsin í París og Metropolitan óperuna í New York.
Tónleikar þessir verða fyrstu tónleikar Tónlistarfélagsins tónleikaárið 2018/2019 og jafnframt upphafið af stórafmælisári félagsins og Tónlistarskóla Ísafjarðar.
Á efnisskránni má m.a. hlýða á ljóð eftir F. Schubert, R. Schumann, og Atla H. Sveinsson auk undurfagurra antik-aría.
Tónleikar sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.
Miðar á tónleikana verða seldir við innganginn. Miðaverð er kr. 3.000, en kr. 2.000 fyrir eldri borgara og öryrkja, og ókeypis er fyrir skólafólk 20 ára og yngri.