Tilkynning vegna yfirvofandi óveðurs

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við alla lögreglustjóra á landinu ákveðið að lýsa yfir hættustigi almannavarna frá miðnætti í kvöld vegna yfirvofandi óveðurs um allt land. Samhæfingarmiðstöð almannavarna og aðgerðastjórnstöðvar um land allt verða virkjaðar um og eftir miðnætti.

Aðgerðarstjórn almannavarna á Vestfjörðum hefur verið virkjuð og beinir því til íbúa að mjög slæm veðurspá er fyrir svæðið í nótt og fram eftir degi á morgun, mánudag. Gera má ráð fyrir versta óveðrinu frá kl. 4.00 í fyrramálið og fram undir hádegi.

Ef veðurspáin gengur eftir verður ekkert ferðaveður á svæðinu, fjallvegir verða lokaðir og svo og leiðir milli byggðakjarna. Búast má við að færð innanbæjar, víðast hvar, verði jafnframt mjög þung og götur að mestu ófærar, utan stofnbrauta, sem reynt verður að halda opnum eftir megni.

Flateyrarvegi og veginum milli Ísafjarðar og Súðavíkur verður lokað ekki seinna en á miðnætti í kvöld, af öryggisástæðum.

Hægt er að fylgjast með framvindu veðursins á vef Veðurstofu Íslands, vegum og lokunum hjá Vegagerðinni og sömuleiðis ölduhæð.

Mælt er með því að íbúar hugi að lausamunum áður en veðrið skellur á. Þá eru eigendur báta beðnir um að huga vel að bátum sínum og treysta landfestar. Íbúar eru sömuleiðis hvattir til að vera ekki á ferðinni nema brýna nauðsyn beri til á meðan versti stormurinn geisar. Gert er ráð fyrir að óveðrið muni ganga hratt yfir og mikilvægt er fyrir okkur öll að bíða það af okkur.

Skólar

Skólastarf í Ísafjarðarbæ verður ekki með venjubundnum hætti en skólar verða þó opnir fyrir þau börn sem á þurfa að halda. Þetta gildir ekki um Grunnskóla Önundarfjarðar, Grunnskólann á Þingeyri og leikskólann Tjarnarbæ á Suðureyri en þar hafa skólastjórnendur beint samband við foreldra.