Tilboð í áningarstaði og göngustíga neðan Gleiðarhjalla samþykkt

Staðsetningar fyrirhugaðra áningarstaða. Mynd: Verkís og Ísafjarðarbær.
Staðsetningar fyrirhugaðra áningarstaða. Mynd: Verkís og Ísafjarðarbær.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti á 1118. fundi sínum tillögu Framkvæmdasýslu ríkisins um að taka tilboði Búaðstoðar ehf. í framkvæmdir við áningarstaði A-B-C-D-E-F og göngustíga neðan Gleiðarhjalla.

Upphafleg kostnaðaráætlun hönnuða var upp á kr. 23.711.800. en aðeins eitt tilboð barst í verkið og hljóðaði það upp á kr. 36.024.020. Framkvæmdasýsla ríkisins fór yfir tilboðið og taldi það óásættanlegt og var í framhaldinu leitað skýringa á þessum mikla muni á tilboði og kostnaðaráætlun. Í kjölfarið endurskoðaði Verkís kostnaðaráætlun sína auk þess að fara yfir tilboðið með verktakanum og var niðurstaðan sú að hönnuðir töldu nokkra liði í áætluninni vera of lága vegna aðstæðna. Endurskoðuð kostnaðaráætlun var upp á kr. 26.755.250. Þá fór verktaki einnig yfir tilboð sitt og taldi sig geta unnið verkið á kr. 30.041.020, sem er 12% yfir endurskoðaðri kostnaðaráætlun.

Að þessu ferli loknu var það mat Framkvæmdasýslu ríkisins að endurskoðað tilboð Búaðstoðar væri ásættanlegt og því var mælt með því að því yrði tekið.

Framkvæmdin greiðist af Ofanflóðasjóði, en hlutur Ísafjarðarbæjar er 10%.

Hönnunargögn voru lögð fram til kynningar á 540. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar og má finna undir fyrsta lið fundargerðar.