Þrettándagleðin færð inn í Edinborgarhús

Eitthvað hefur fokið í Grýlu og er orðið fullhvasst til að álfar haldist á sama stað. Því hefur verið ákveðið að færa þrettándagleði inn í Edinborgarhús og hefst dagskrá þar klukkan 18.00, að loknu jólaballi sem hefst klukkan 16.30. Dagskrá verður að flestu leyti eins og áætlað hafði verið, nema hvað að ekki verða kveiktir eldar, a.m.k. ekki viljandi. Að loknum álfadansi hefst þrettándaskemmtun á sviði og verður Matthildur Helga- og Jónudóttir kynnir. Fulltrúi framtíðarinnar flytur álfa- og þrettándaljóð áður en kemur að kveðjustund þeirra Stúfs og Gluggagægis Leppalúðasona sem málað hafa bæinn rauðan yfir hátíðarnar. Þá stíga á svið álfakóngur og –drottning sem taka nokkur álfa- og áramótalög. Dagskránni lýkur svo á flugeldasýningu Björgunarfélags Ísafjarðar.

Verum saman og kveðjum jólin á þrettánda degi.