Þrettándagleði á Ísafirði

Þrettándagleði verður að þessu sinni haldin á Silfurtorgi undir stjórn Kómedíuleikhússins á Ísafirði og hefst hún klukkan 18 en ekki klukkan 20 eins og hefur verið venjan. Safnast verður saman við Edinborgarhúsið klukkan 17.45 og gengið sem leið liggur að torginu og hafa bæði álfar og jólasveinar staðfest komu sína í gönguna. Liðlega klukkustund áður, eða klukkan 16.30, hefst jólaball í Edinborgarhúsinu sem opið er öllum jólabörnum, ungum sem öldnum.

Þegar gangan nær Silfurtorgi býðst öllum að stíga álfahringdans undir styrkri stjórn vel valinna álfa og jólasveina, en því skal ekki lofað að þeir síðarnefndu geti haldið takti. Þá verður selt heitt súkkulaði og með því til styrktar sundfélaginu Vestra.

Að dansi loknum hefst þrettándaskemmtun á sviði og verður Matthildur Helga- og Jónudóttir kynnir. Fulltrúi framtíðarinnar flytur álfa- og þrettándaljóð áður en kemur að kveðjustund þeirra Stúfs og Gluggagægis Leppalúðasona sem málað hafa bæinn rauðan yfir hátíðarnar. Þá stíga á svið álfakóngur og –drottning sem taka nokkur álfa- og áramótalög. Dagskránni lýkur svo á flugeldasýningu Björgunarfélags Ísafjarðar.

Verum saman og kveðjum jólin á þrettánda degi.