Þingeyri: Fréttir af sundlauginni
Eins og fram hefur komið lekur sundlaugarkarið í sundlauginni á Þingeyri og hefur laugin því verið lokuð um nokkra hríð.
Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, sem kynnt var bæjarráði þann 13. nóvember, kemur fram að fyrstu athuganir sýna að dúkur í laugarkari er ónýtur og þarf að skipta um hann. Mögulega þarf einnig að skipta um innrennslisstúta, en frárennslisstútur gæti verið í lagi. Þegar stútar hafa verið fjarlægðir þarf að mynda lagnirnar fyrir innrennsli og fráveitu.
Ekki er hægt að meta ástand karsins til fulls fyrr en dúkurinn hefur verið fjarlægður og því eru næstu skref að fá verktaka til að fjarlægja dúkinn og svo mynda innstreymislagnir.
Þá þarf að taka út ástand sundlaugarkarsins með tilliti til mögulegra sprungna og tæringar. Í framhaldinu verður hægt að kostnaðarmeta nauðsynlegar framkvæmdir. Samtal er hafið við fagaðila vegna dúkskipta.
Það er því ljóst að ekki verður hægt að opna sundlaugina á næstunni en íbúum verður haldið upplýstum eftir því sem fram vindur.