Tapio Koivukari kynnir nýja bók í Edinborgarhúsi

Þriðjudagskvöldið 23. október kynnir finnski verðlaunahöfundurinn Tapio Koivukari nýja bók sína í útgáfuhófi í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Samkoman hefst klukkan 20:00

Bókin sem heitir Galdra-Manga segir frá galdraofsóknum á Íslandi á 17. öld og byggir á sögulegum atburðum. Bókin kom fyrr á árinu út á finnsku og hefur þegar hlotið einróma lof þar í landi. Höfundur er nákunnugur Íslandi og söguslóðum Galdra-Möngu en hann bjó um langt árabil á Íslandi þar sem hann starfaði meðal annars sem smíðakennari á Ísafirði.
 
Galdra-Manga - dóttir þess brennda er gefin út af Sæmundi á Selfossi en Sigurður Karlsson þýðir.
Manga er ung heimasæta á kostajörðinni Munaðarnesi á Ströndum á 17. öld. Fjölskylda hennar er bjargálna og talin kunna fleira fyrir sér en almennt gerist. En þegar undarlegir fyrirburðir verða í sóknarkirkjunni í Árnesi er sjónum yfirvalda beint að Munaðarnesfólkinu.
 
Í upphafi frásagnarinnar er Manga lögð á flótta yfir heiðina vestur í Ísafjarðardjúp eftir að Þorleifur Kortsson sýslumaður hefur látið brenna föður hennar á báli fyrir galdra. Sjálf er hún útskúfuð og sætir ásökunum sveitunga sinna um fjölkynngi.
 
Lesandinn fylgir Möngu á flóttanum og í baráttu hennar fyrir réttlæti, en um leið eru rifjaðir upp atburðirnir sem leiddu til þess að hún forðaði sér.
 
Sagan er byggð á raunverulegum atburðum og þjóðsagnapersónan Galdra-Manga fær hér uppreisn æru.
 
Tapio les einnig úr bók sinni í Reykjavík og á Akranesi sjá nánar í viðburði á Facebook hér