Tangi hlýtur Orðsporið 2025

Handhafar Orðsporsins 2025 fagna við varðeld á Tanga ásamt Guðrúnu Birgisdóttur, fulltrúa Orðsporsin…
Handhafar Orðsporsins 2025 fagna við varðeld á Tanga ásamt Guðrúnu Birgisdóttur, fulltrúa Orðsporsins og Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur bæjarstjóra.
Mynd: Ágúst Atlason.

Leikskólinn Tangi á Ísafirði hlýtur Orðsporið 2025, hvatningarverðlaun Kennarasambands Íslands, fyrir að vera leiðandi leikskóli á Íslandi í útinámi. Orðsporið er veitt árlega á Degi leikskólans, 6. febrúar, fyrir framúrskarandi skólastarf eða umbætur og þróun í menntamálum eða í kennsluháttum á leikskólastiginu. 

Guðrún Birgisdóttir, skóla- og sérkennslufulltrúi, veitti Jónu Lind Kristjánsdóttur, skólastjóra Tanga, viðurkenninguna fyrir hönd aðstandenda Orðsporsins, sem komust ekki vestur vegna veðurofsa. Athöfnin fór fram á útisvæði Tanga þar sem nemendur og kennarar söfnuðust saman við lítinn varðeld, sungu Sólarpönnukökulagið og veifuðu fánum til að fagna verðlaununum. 

Í tilnefningu segir um Tanga að hann sé leiðandi leikskóli á Íslandi í útinámi. Þar læri börn um veður, náttúruna og hvernig hægt sé að útbúa sig og takast á við þær mismunandi aðstæður sem útiveran býður upp á hverju sinni.

Í umsögn valnefndar segir að verkefnið sé afar áhugavert og „tikki í mörg box“, svo sem hvað varðar Menntastefnu og Aðalnámskrá leikskóla. „Þetta er valdeflandi fyrir börnin, heilsueflandi, snertir geðrækt, styður við forvarnir, eflir útiveru og náttúruupplilfun, svo eitthvað sé nefnt, og nær bæði til barna og kennara,“ segir í umsögninni.

Nánari upplýsingar eru í frétt á vef Kennarasambands Íslands.