Takk veggir komnir upp í Ísafjarðarbæ
Settir hafa verið upp „Takk veggir“ eða skilti á Flateyri, Ísafirði, Suðureyri og Þingeyri. Veggirnir eru hluti af hvatningarátakinu TAKK FYRIR AÐ VERA TIL FYRIRMYNDAR, tileinkuðu frú Vigdísi Finnbogadóttur og íslensku þjóðinni í tilefni þess að 40 ár eru liðin síðan Íslendingar voru fyrst þjóða til að kjósa konu sem forseta í lýðræðislegum kosningum. Hugmyndin á bak við verkefnið er að fá fólk til að staldra við, huga að því sem vel er gert og þakka þeim sem það telur vera til fyrirmyndar á einn eða annan hátt. Því má einnig finna bréf með yfirskriftinni ,,Takk fyrir að vera til fyrirmyndar" í pósthúsum, útibúum Landsbankans og í verslunum Nettó sem landsmenn eru hvattir til að senda til þeirra sem þeir telja vera til fyrirmyndar.
Hægt er að taka þátt í hvatningarátakinu á Instagram og Facebook undir merkjunum @tilfyrirmyndar og #tilfyrirmyndar með því að birta myndir af bréfum sem maður skrifar, bréfum sem maður fær eða með því að deila myndum af sér og sínum fyrir framan „Takk veggi“.