Styrkur til náms við Lýðskólann á Flateyri

Vilt þú stunda nám við Lýðskólann á Flateyri í vetur?

Ísafjarðarbær auglýsir til umsóknar styrk fyrir nemanda úr Ísafjarðarbæ til náms við Lýðskólann á Flateyri veturinn 2023-2024.

Umsóknarfrestur er til miðnættis föstudaginn 25. ágúst og er sótt um í gegnum umsóknarform.

Lýðskólinn sér um val á umsækjanda og verður öllum umsækjendum tilkynnt um niðurstöðuna í vikunni 28. ágúst-1. september.

Styrkurinn felst í greiðslu Ísafjarðarbæjar á skólagjöldum (innifalið í skólagjöldum er morgunmatur sem og hádegismatur alla virka daga á meðan á skólastarf er í gangi (ekki í haust, vetrar, jóla eða páskafríi) og allt efni og afnot af sértækum búnaði sem þarf í námið) og húsaleigu einstaklingsherbergis á nemendagörðum Lýðskólans á Flateyri (innifalið í leigu er rafmagn, hiti, og nettenging). 

Frekari upplýsingar veitir skólastjóri Lýðskólans, sigga@lydflat.is


Langar þig að breyta til, gera eitthvað ævintýralegt, læra eitthvað nýtt, kynnast nýju fólki, kannski fara í skóla án heimanáms, án prófa eða bóka? Þá er Lýðskólinn góður valkostur.

Í Lýðskólanum á Flateyri gefst þér tækifæri á að kynnast; lífi í sjávarþorpi á Vestfjörðum, nýju fólki, nýjum áskorunum og það sem öllu máli skiptir sjálfum þér. Í boði eru nám á tveimur brautum, „hafið fjöllin og þú“ þar sem áhersla er lögð á útivist og „hugmyndir, heimurinn og þú“ þar sem lögð er áhersla á skapandi greinar. Á báðum brautum er megináherslan að nemendur efli sig á allan hátt, kynnist nýjum hliðum á sér og tilverunni. Einnig er mikið lagt upp úr því að nemendur kynnist samfélaginu og taki þátt í því.

Nánari upplýsingar um Lýðskólann eru á www.lydflat.is