Stuðsamningur endurnýjaður: „Páskarnir eiga áfram heima á Ísafirði“

Stuðsamningur Ísafjarðarbæjar og Aldrei fór ég suður til áranna 2025-2027 var undirritaður á Suðurtanga í dag, föstudaginn 7. febrúar.
Markmið samningsins er meðal annars að Aldrei fór ég suður og Ísafjarðarbær bjóði upp á metnaðarfulla tónlistarhátíð þar sem gestir fá að njóta framúrskarandi íslenskrar tónlistar í einstöku umhverfi. Sem fyrr er sérstök áhersla lögð á að hátíðin kynni tónlistarfólk með tengsl við Ísafjarðarbæ.
Að sögn Sigríðar Júlíu Brynleifsdóttur, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, er samfélagslegur ávinningur samningsins mikill.
„Aldrei fór ég suður er ekki bara tónlistarhátíð, heldur mikilvægur samfélagslegur viðburður sem styrkir menningarlíf, eflir samstöðu íbúa og laðar gesti til bæjarins,“ segir Sigríður. „Við erum stolt af því að styðja hátíðina áfram svo hún haldi áfram að blómstra og fylla bæinn af fjöri um páskana.“
Samkvæmt samningnum leggur Ísafjarðarbær Aldrei fór ég suður árlega til 10 m.kr. til að tryggja allar grunnstoðir hátíðarinnar auk þess að gera skipuleggjendum kleift að tryggja öryggi og góða upplifun gesta og listafólks.
„Þetta er risastór viljayfirlýsing bæjaryfirvalda, og vonandi bæjarbúa einnig, sem undirstrikar þá staðreynd að páskarnir eiga áfram heima á Ísafirði,“ segir Kristján Freyr, rokkstjóri Aldrei fór ég suður. Fjármagnið kemur úr styrktarsjóði Hafna Ísafjarðarbæjar sem settur var á fót á liðnu ári, þá sem sumarviðburðasjóður. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 var sjóðurinn stækkaður til muna auk þess sem hlutverk hans verður útvíkkað.
Sveitarfélagið skuldbindur sig einnig til að leggja sig fram við að halda viðburði á svæðinu á páskum og hvetja um leið alla aðila í verslun og þjónustu að gera slíkt hið sama, til að stuðla að fjölda og fjölbreytni viðburða á þeim tíma sem hátíðin er haldin.
Samningurinn var samþykktur á 546. fundi bæjarstjórnar og tekur gildi nú þegar.