Strokkvartettinn Siggi í Hömrum
Tónlistarfélag Ísafjarðar býður upp á tónleikana "Úr tré í tóna" föstudaginn 15. júní kl. 20:00 í Hömrum. Þetta eru 3. áskriftartónleikar félagsins á yfirstandandi starfsári. Áskriftarkort félagsins gilda á tónleikana, en einnig eru seldir miðar við innganginn. Miðaverð er kr. 3.500, en kr. 2.000 fyrir eldri borgara og öryrkja, en ókeypis er fyrir skólafólk 20 ára og yngri.
Á þessum einstöku tónleikum mun Strokkvartettinn Siggi leika á hljóðfæri sem öll eru smíðuð af fiðlusmiðnum Jóni Marinó Jónssyni. Sellóið var smíðað fyrst en fyrirmynd þess er Stradivariselló frá árinu 1710. Fiðlurnar og víólan, sem fylgdu í kjölfarið, eru eftir eigin teikningum Jóns Marinós. Á efnisskrá eru fjögur íslensk verk sem samin eru sérstaklega fyrir Sigga en einnig verður fluttur fyrsti strokkvartett Jóns Leifs, Mors et Vita, ópus 21 (1939). Frumfluttur verður kvartett Mamiko Dísar Ragnarsdóttur, Blómin fríð, sem er saminn undir áhrifum frá verki Eggerts Péturssonar, Án titils (Norðurland og Tröllaskagi) frá árinu 2011. Seremónía (2013) Hauks Tómassonar heyrist hér í nýjum búningi. Verkið er allt leikið mjög veikt en magnað upp til að draga fram smáatriði og aukahljóð sem verða til við tónmyndun. Verk Halldórs Smárasonar, draw+play (2017), er óður til harmonikkunnar og tileinkað þeim Ásgeiri S. Sigurðssyni og Messíönu Marzellíusdóttur. Tilraunaverk Unu Sveinbjarnardóttur, Þykkt (2014), er í fjórum köflum sem hver hverfist um eitt hljóðfæri kvartettsins; fiðlu, selló, víólu, fiðlu.
Listamenn: Una Sveinbjarnardóttir, Helga Þóra Björgvinsdóttir, Þórunn Ósk Marinósdóttir, Sigurður Bjarki Gunnarsson
Hljóðfærasmiður: Jón Marinó Jónsson