Staðan á vatnsmálum á Suðureyri 7. september
Hér að neðan eru nýjustu upplýsingar frá vatnsveitu Ísafjarðarbæjar um stöðuna á vatnsmálum á Suðureyri.
Gamla lögnin út í Staðardal er orðin mjög lúin og skilar bara hálfum afköstum. Verktaki stefnir á að klára að leggja nýja leiðslu á sunnudag eða mánudag 11.-12. september. Strax í kjölfarið verður farið í tengivinnu til að tengja nýju lögnina við vatnstankinn. Þangað til verða íbúar á Suðureyri að spara vatn eins og hægt er og gera má ráð fyrir því að truflun verði á vatnsþrýstingi eða jafnvel tímabundið vatnsleysi í einhverjum húsum hluta af þessum tíma. Þegar sjálf tengivinnan stendur yfir, eftir helgi, er fyrirséð að loka þarf alveg fyrir vatnið í nokkra klukkutíma. Sérstök tilkynning verður send út til íbúa þegar að því kemur.
Enn er ekki búið að finna lekann sem hefur valdið vatnsskorti síðan í sumar en þó hefur náðst að einangra frekar mögulega staðsetningu. Ekki er hægt að halda leitinni áfram fyrr en ný lögn hefur verið tengd.
Á meðan beðið er eftir nýrri tengingu og að leki finnist verður haldið áfram að keyra vatni í tankinn frá Ísafirði. Undanfarna daga hafa tveir tankbílar verið nýttir til þess og fara þeir margar ferðir á dag.
Það er því ljóst að ástandið verður snúið fram að og fram yfir helgi og er beðist velvirðingar á þeim óþægindum sem þessar truflanir á vatni og vatnslokanir hafa óhjákvæmilega í för með sér. Það fer vonandi að styttast í að vatnsmálin komist á réttan kjöl í Súgandafirði.