Staða endurskoðunar aðalskipulags og fyrirhugaðrar landfyllingar við Fjarðarstræti
Á fundi bæjarráðs í morgun, mánudaginn 7. febrúar, var staða endurskoðunar Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar og fyrirhuguð landfylling við Fjarðarstræti rædd, en Arna Lára Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Í-listans lagði fram eftirfarandi fyrirspurn þann 28. janúar:
„Í samningi um aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2020-2032 við Arkís arkitekta var gert ráð fyrir að vinnu við aðalskipulagið yrði lokið 16.9.2021.
1. Hverjar eru helstu ástæður þess að vinnu við aðalskipulag 2020-2032 hefur seinkað jafn mikið og raun ber vitni?
2. Hver er staðan á vinnu við aðalskipulags? Hvaða verkþáttum er lokið og hvað stendur út af?
3. Hvenær er gert ráð fyrir verklokum?
4. Hversu mikið hefur verið greitt til Arkís vegna verkefnisins?
Meirihluti bæjarstjórnar hefur lagt mikla áherslu á vinnu við landfyllingu við Fjarðarstræti, sem nefnd hefur verið Norðurbakki.
1. Hver er tímalína þessa verkefnis?
2. Þarf sjóvarnargarður að vera tilbúin áður en uppdæling úr sundunum hefst?
3. Hvar er gert ráð fyrir að efni verði tekið í nýjan sjóvarnargarð?“
Endurskoðun Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar
Í svörum Axels R. Överby, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, kemur m.a. fram að helstu ástæður tafa við endurskoðun aðalskipulagsins megi rekja til heimsfaraldurs Covid-19, sem hefur hægt á allri starfsemi og vinnu í þjóðfélaginu m.a. í störfum nefnda varðandi aðalskipulagið, auk þess sem aðalskipulagsráðgjafarnir hafa þurft að fresta ferð vestur ítrekað. Einnig hafa starfsmannamál á umhverfis- og eignasviði sett strik í reikninginn, en skipulags- og mannvirkjanefnd og umhverfis- og framkvæmdanefnd hafa ekki starfsmenn til að fylgja eftir stefnu nefndanna inn í aðalskipulagsvinnuna.
Staðan á vinnu endurskoðunar aðalskipulags er eftirfarandi:
Drög að sveitarfélagsuppdrætti og þéttbýlisuppdráttum allra þéttbýliskjarna liggja fyrir. Greinargerð er í vinnslu og er áætlað að um 75% textavinnslu sé lokið. Unnið er að grafískri uppsetningu greinargerðar, skýringamyndum og skýringauppdráttum og framsetningu landupplýsinga fyrir stafrænt skipulag. Endurskoðuð verkáætlun gerir ráð fyrir að endurskoðuð aðalskipulagstillaga verði tilbúin til auglýsingar og í afgreiðsluferli í desember 2022. Áætlað er að ráðgjafar komi vestur í febrúar eða mars til að halda vinnufund með bæjarfulltrúum og nefndarmönnum. Eftir fundinn ætti að vera hægt að uppfæra gögn í opinbera kynningu með hverfisráðum og íbúum.
11,5 milljónir hafa verið greiddar til arkitektastofunnar Arkís frá undirritun samnings við stofuna í október 2019.
Landfylling við Fjarðarstræti
Tímalína verkefnisins er eftirfarandi:
Breyting á aðalskipulagi | Dýpkun við Sundabakka | |
Janúar | Greining | |
Febrúar | Greining á valkostum | |
Mars | Mat, greining samráð, útfærsla og skipulagsdrög samþykkt | |
Apríl | Kynning á vinnslustigi, úrvinnsla athugasemda | Dæling getur hafist |
Maí | Drög að skipulagstillögu send til samþykktar í bæjarstjórn, síðan send til Skipulagsstofnunar til athugunar | Mestur þungi dælingar |
Júní | Tillaga með breytingartillögum Skipulagsstofnunar send til samþykktar í bæjarstjórn | Mestur þungi dælingar |
Júlí | Skipulag auglýst | Mestur þungi dælingar |
Ágúst | Tillaga að aðalskipulagi send til samþykktar í bæjarstjórn | Dæling |
September | Yfirferð Skipulagsstofnunar | Dæling |
Október | Auglýsing í Stjórnartíðindum – gildistaka skipulags | Dæling |
Að sögn Axels er æskilegast að fyrirstöðugarður verði klár fyrir dælingu, annars er hætt við að efnið berist aftur í sundin með straumum. Mögulegt væri að að setja þvergarð út frá Norðurtanga, en það yrði alltaf að klára fyrirstöðugarð. Áætlað er að hægt sé að nýta um 60% af því efni sem fyrir er í nýjan sjóvarnargarð. Annað efni þarf að vera aðkeypt úr námum, s.s. úr Dagverðardal eða öðrum námum.