Sorpmál: Fyrirkomulag í fjölbýlishúsum

Nú þegar álagningarseðlar fasteignagjalda hafa verið birtir kvikna ófáar spurningar um gjöld vegna meðhöndlunar úrgangs (áður sorpgjöld), sem hafa tekið nokkrum breytingum. Helstu upplýsingar um þessar breytingar hafa verið kynntar í fyrri fréttum:

Hér að neðan eru teknar saman leiðbeiningar og upplýsingar um mögulegar breytingar á fyrirkomulagi úrgangsmála fyrir íbúa í fjölbýlishúsum. 


Í fjölbýli þarf meirihluti eigenda að óska eftir öllum breytingum á sorphirðuílátum. Þau gjöld sem greidd eru fyrir sorphirðuna fara eftir fjölda og tegundum tunna og því hafa slíkar breytingar áhrif á alla íbúa hússins.

Yfirlit um fjölda tunna

Húsfélög fjölbýlishúsa geta fengið yfirlit um fjölda og gerð tunna, auk skiptingar á staðfanginu með því að senda erindi þess efnis á sorphirda@isafjordur.is

Breytingar á fjölda íláta

Hægt er að sækja um breytingar á fjölda íláta við fjölbýli með umsókn í þjónustugátt.

Íbúar í smærra fjölbýli, þar sem er ekki starfandi hússtjórn, geta einfaldlega sent tölvupóst um að þeir séu sammála um breytingarnar.

Í stærra fjölbýli þarf hússtjórn að senda inn samþykkta ósk um breytingar sem hafa áhrif á gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs.

Sorpgeymslur

Sorpgeymslur eru almennt í sameign fjöleignarhúsa og bera eigendur allir óskipta ábyrgð á sameigninni. Húsfélagið og eigendur bera ábyrgð á sameiginlegum kostnaði og því ábyrgð á kostnaði sem hlýst af rangt flokkuðum úrgangi.

Sannist að einn eigandi sé að valda húsfélaginu kostnaði með því að flokka ekki úrganginn getur húsfélagið endurkrafið hann um kostnaðinn samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Húsfélag getur einnig sett húsreglur sem ná til flokkunar á úrgangi. Sannist það að einn eigandi fari ítrekað ekki eftir reglunum þá getur húsfélagið lagt bann við búsetu eða dvöl hans í húsinu.

Nánari útlistun á réttindum og skyldum eiganda má nálgast í lögum um fjöleignarhús.