Sólrún og Anna Málfríður í Hömrum

Annað kvöld, þann 30. nóvember verða haldnir í Hömrum tónleikar sem hefjast klukkan 19:30.  Það eru þær Sólrún Bragadóttir söngkona og Anna Málfríður Sigurðardóttir píanóleikari sem flytja fallega blandaða dagskrá. Fegurstu ljóðasöngva og eftirlætis óperuaríur, ásamt íslenskum og ítölskum söngperlum. 

 

Sólrún við helstu óperu- og leikhús í Þýskalandi t.d. í Kaiserlautern, Hannover, Düsseldorf, Mannheim, München, Karlsruhe, Kiel, Kassel, Heidelberg og einnig víða annars staðar í Evrópu, USA og Japan,  í Belfast, Avignon, Torino, Liége, Bern, Palm Beach, Tsuyama í Japan og víðar. Meðal hlutverka Sólrúnar má nefna Mimi í La Bohème, Liú í Turandot, Suor Angelica í samnefndri óperu, Desdemona í Otello, Gilda í Rigoletto, Margarethe í Faust, Leonore í Fidelíó, Elísabet í Don Carlo, Marie í Seldu Brúðinni, Antoniu í Ævintýrum Hoffmanns, Michaela í Carmen, Greifafrúna í Brúðkaupi Fígarós, Donna Anna í Don Giovanni, Pamínu í Töfraflautunni, Elettra í Idomeneo og Fiordiligi í Così fan tutte.Sólrún hefur oft komið fram sem einsöngvari með hljómsveitum, tekið þátt í óperum, ljóðatónlist, óratoríum og sungið Vínartónlist. Í haust stofnaði hún eigin söngskóla, Allelúja, Sacred Sound Skóli, þar sem raddþjálfunin er unnin útfrá heildrænum nálgunum. Sólrún er komin heim með annan fótinn en býr annars í Umbríu fylki á Ítalíu þar sem hún syngur og kennir.

 

Anna Málfríður er Ísfirðingur að uppruna og hóf tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar, þar sem Ragnar H. Ragnar var aðal píanókennari hennar.

Framhaldsnám  stundaði  hún við Guildhall School of Music and Drama, London  og útskrifaðist  þaðan sem einleikari og kennari  árið 1971. Hún stundaði  síðan  frekara  nám í píanóleik  hjá  prófessor  Brigitte Wild  til ársins 1974.

Frá 1974 hefur Anna starfað sem píanókennari og píanóleikari, bæði á Íslandi og erlendis, nú síðast við Tónskóla Sigursveins, Reykjavík. Hún hefur einnig verið leiðbeinandi á námskeiðum í píanóleik. Anna Málfríður hefur haldið tónleika víðsvegar, bæði hér heima og erlendis og komið fram sem einleikari, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveitinni í Trier, en hún hefur einnig verið virk í kammermúsík og meðleik, þ.á. meðal haldið ljóðatónleika með Sólrúnu Bragadóttur söngkonu.

 

Tónleikarnir verða, eins og áður segir,  í Hömrum mið. 30. nóv. hefjast kl. 19:30
Aðgangseyrir: 2.500 kr. en 2.000 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja. FRÍTT inn fyrir 20 ára og yngri.