Slökkvilið Ísafjarðarbæjar fær nýja bíla
25.08.2020
Fréttir
Slökkvilið Ísafjarðarbæjar hefur tekið á móti tveimur nýjum bifreiðum, annars vegar slökkvibíl og hins vegar sjúkrabíl. Sjúkrabíllinn er einn af 25 nýjum sjúkrabílum sem Rauði kross Íslands fékk afhenta um miðjan mánuðinn, en Rauði krossinn á og rekur sjúkrabílaflota landsins. Nýju sjúkrabílarnir eru af gerðinni Mercedes Benz Sprinter og eru með svokallaðri Battenburg-merkingu sem ætlað er að auka sýnileika bifreiðanna enn frekar. Sjúkrabíllinn verður tekinn í notkun strax í þessari viku.
Slökkvibíllinn er af gerðinni Ford F550 og er sérhannaður fyrir ganganotkun. Bíllinn verður staðsettur á Þingeyri til að mæta aukinni öryggis- og viðbragðsskyldu slökkviliðsins með tilkomu Dýrafjarðarganga, sem áætlað er að opni í október 2020.