Skólastarf: Aðgerðir vegna COVID-19 og möguleg röskun vegna veðurs
Veðurútlit næsta sólahringinn er ansi slæmt og appelsínugul viðvörun í gildi frá kl. 19:00 16. mars til kl. 20:00 17. mars. Ef spáin gengur eftir verður lágmarksstarfssemi í leik- og grunnskólum Ísafjarðarbæjar. Hver skóli birtir upplýsingar um stöðu mála varðandi opnun á heimasíðu sinni, fyrir kl. 07:00 í fyrramálið, þriðjudaginn 17. mars. Hafa ber í huga að veðrið er ekki eins milli fjarða og því líkur á að skólahaldi verði háttað á mismunandi hátt eftir því hvernig veðrið hagar sér á hverjum stað.
Í dag hafa allir skólar Ísafjarðarbæjar unnið að því að skipuleggja starfið eftir fyrirmælum yfirvalda vegna COVID-19. Leik- og grunnskólar setja inn á sínar síður frekari upplýsingar varðandi skólastarfið næstu daga. Hafa ber í huga að skólastarfið getur tekið breytingum mjög hratt. Dagurinn á morgun fer í það að sjá hvað gengur upp og hvar þarf að bregðast við á annan hátt. Mikilvægt er að allir hjálpist að og leggist á eitt að gera starfið sem best fyrir börnin.
Skólaakstur er eitt af því sem þarf að aðlaga samkvæmt fyrirmælum Embættis landlæknis eins og sjá má hér að neðan:
Bil milli nemenda í skólastofum er ekki skilyrt við 2 metra, umfram fjöldatakmörkun, og þ.a.l. ekki í skólabílum heldur. Þó er lögð áhersla á að reyna að halda öllum snertingum í lágmarki og fjarlægð eins og unnt er. Það er æskilegt að börn sem ekki koma af sama heimili sitji ekki hlið við hlið í skólabílum en varast þarf að vekja með þeim ótta og reyna þarf eins og unnt er að viðhalda öryggistilfinningu og jafnvægi. Þar sem fjöldi nem. í skólabílum fer yfir 20 gæti þurft að tvískipta akstri eða fá foreldra með í lið. Börn, sem eiga viðkvæma aðstandendur, gætu þurft að halda sig frá skólabílnum og verða foreldrar að leggja mat á það.
Allir sem hafa tök á að keyra og sækja börnin sín í skólann eru beðnir um að gera það á meðan samkomubannið stendur. Starfsfólk Ísafjarðarbæjar mun næstu daga leggja sig fram við að aðlaga þessi tilmæli eins og kostur er að starfinu hér en vert er að taka fram að að öllum líkindum verður á einhverjum tímapunkti rekist á veggi. Við leggjum okkur þó að sjálfsögðu fram um að komast hjá því eins og kostur er.
Starfið í Dægradvöl hefur verið skipulagt eftir fyrirmælum og þar verður þjónustu haldið úti alla daga fyrir nemendur sem óska eftir því.
Íþróttahús og sundlaugar verða áfram opin út frá þeim viðmiðum sem yfirvöld setja en að sjálfsögðu verður brugðist við tilmæli breytast.
Skíðasvæði verða opin en skálar lokaðir, nema afgreiðslan. Korthafar eru minntir á að hafa kortin með sér.
Stefanía Ásmundsdóttir
Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs