Skólar: Samið um samþætta þjónustu, kennsluráðgjöf og sálfræðiþjónustu

Bæjarstjórn hefur samþykkt tvo verktakasamninga fyrir skóla- og tómstundasvið Ísafjarðarbæjar. Annars vegar samning um verkefnastjórn innleiðingar samþættrar þjónustu í leik- og grunnskólum og kennsluráðgjöf og hins vegar samning um sálfræðiþjónustu.

Samið var við Sólveigu Norðfjörð, sálfræðing, um kennsluráðgjöf og að innleiða lög nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna tóku gildi 1. janúar 2022, en sveitarfélög hafa fimm ár til að innleiða lögin frá og með 1. janúar 2023. Í minnisblaði Hafdísar Gunnarsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs kemur fram að með samningnum fái skólar Ísafjarðarbæjar nauðsynlegan stuðning og aðstoð við innleiðinguna. Einnig kemur fram að samningur um kennsluráðgjöf styðji við starfsfólk skóla, meðal annars með athugunum á náms- og félagslegri stöðu nemenda og ráðgjöf vegna kennslu á náms nemenda. Kennsluráðgjafi vinnur í nánu samstarfi við nemendur, foreldra, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda, veitir ráðgjöf um starfsumhverfi og starfshætti skóla og tekur þátt í nýsköpunar- og þróunarstarfi í skólaumhverfinu. Samningurinn tekur gildi 1. ágúst 2023 og gildir til 31. desember 2024.

Samningur um sálfræðiþjónustu fyrir skóla- og tómstundasvið Ísafjarðarbæjar var gerður við starfandi skólasálfræðinga sveitarfélagsins, þær Björgu Norðfjörð og Sólveigu Norðfjörð. Samningurinn tekur gildi 20. ágúst 2023 og gildir til 15. júní 2025.