Skipulagslýsing: Nýting jarðhita í Seljalandshverfi

Mynd: Verkís
Mynd: Verkís

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti þann 31. október 2024 að auglýsa skipulagslýsingu, skv. 1. mgr. 30 .gr. skipulagslaga nr. 123/2010, vegna nýtingar jarðhita í Seljalandshverfi, á svæði við götuna Seljaland, ofan Skógarbrautar á Ísafirði í mynni Tungudals.

Lýsingin er dags. 4. október 2024 og er unnin af ráðgjöfum Verkís hf. fyrir Orkubú Vestfjarða ohf.

Breytingin felst í að nýtt iðnaðarsvæði verður skilgreint í Seljalandshverfi og íbúðarsvæði Í8 verður minnkað sem því nemur. Hið nýja iðnaðarsvæði verður eingöngu ætlað fyrir jarðhitaleit og nýtingu heitavatns.

Ákvæði verða sett um umgengni á svæðinu með áherslu á að skerða ekki gæði aðliggjandi íbúðarsvæðis, útivistarsvæðis og hverfisverndarsvæðis. Breytingin felst einnig í að gert verður ráð fyrir stofnlögn hitaveitu frá vinnslusvæði í Seljalandshverfi, meðfram Skógarbraut við Tunguá og þaðan meðfram Skutulsfjarðarbraut, annars vegar að kyndistöð OV á Tunguskeiði og hins vegar að kyndistöð Orkubúsins við Mjósund á Eyrinni. Stofnlögn hitaveitu verður bætt inn á uppdrátt en hún mun liggja um mismunandi landnotkunarreiti, þ.á.m. hverfisverndarsvæði H6.

Ekki er gert ráð fyrir breytingum á markmiðum og ákvæðum fyrir þessi svæði. Skerpt verður á markmiðum gildandi aðalskipulags um að spilla ekki verðmætum náttúrusvæðum og tryggja fyrirmyndar frágang veitumannvirkja, í tengslum við jarðhitanýtingu í Tungudal.

Skipulagslýsingin er aðgengileg á bæjarskrifstofum, Hafnarstræti 1, Ísafirði, og í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar, mál nr. 1387/2024, frá 19. nóvember 2024 til og með 8. desember 2024.

Hverjum þeim sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemd við tillöguna á kynningartíma. Athugasemdum skal skilað í Skipulagsgáttina eða senda skriflega til Ísafjarðarbæjar, Hafnarstræti 1, 400 Ísafirði, b.t. skipulagsfulltrúa eða á skipulag@isafjordur.is .

Skipulagsfulltrúi Ísafjarðarbæjar