Skemmtiferðaskipasumarið 2024 hafið
Fyrsta skemmtiferðaskipið á árinu 2024 lagði að bryggju á Ísafirði á laugardaginn og því er tímabil skemmtiferðaskipa formlega hafið. Næstu tvö skip eru væntanleg 21. apríl en síðan er hlé fram yfir miðjan maí þegar segja má að tímabilið hefjist af alvöru.
195 skipakomur eru bókaðar frá apríl til loka september. Samanlagður fjöldi farþega um borð í skipunum er að hámarki 255.000 en vert er að geta þess að nýting plássa um borð í skipunum er alla jafna um 60-70%. Hægt er að glöggva sig betur á bókuðum skipakomur til hafna Ísafjarðarbæjar á síðunni Skemmtiferðaskip 2024.
Stefna um móttöku skemmtiferðaskipa við hafnir Ísafjarðarbæjar 2024–27 tók nýlega gildi og er vinna við aðgerðaáætlun stefnunnar þegar hafin. Stefnunni er ætlað að bæta upplifun gesta, minnka álag á samfélagið, bæta umhverfismál og tryggja sjálfbærni þessarar mikilvægu atvinnugreinar til lengri tíma. Þar er meðal annars kveðið á um hámarksfarþegafjölda sem miða skal við auk þess sem teknir verða upp fjárhagslegir umhverfishvatar til að draga úr mengun. Þá skal komið á varanlegri lausn á salernismálum í öllum byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar sem gestir skemmtiferðaskipa heimsækja.
Komur skemmtiferðaskipa skipta öllu máli fyrir rekstur hafna Ísafjarðarbæjar en tekjur af komum skemmtiferðaskipa eru um helmingurinn af heildartekjum hafnarinnar. Án þessara tekna væru hafnirnar reknar með tapi og þyrftu niðurgreiðslu úr bæjarsjóði.