Skemmtiferðaskipasumarið 2023 að hefjast
Í þessari viku koma fyrstu skemmtiferðaskip sumarsins til hafnar, eitt sem stoppar á Suðureyri og Ísafirði á morgun, fimmtudag og eitt á Ísafirði á laugardag.
Tímabilið fer rólega af stað en framundan er þó stærsta skemmtiferðaskipasumar hafna Ísafjarðarbæjar hingað til. Áætlaðar eru 206 komur 78 skipa frá 4. maí–5. október. Fjöldi farþega um borð í skipunum er að hámarki 264.332 en vert er að geta þess að fæst skipanna eru með 100% nýtingu plássa. Hægt er að skoða bókaðar skipakomur í dagatali og töflu á síðunni Skemmtiferðaskip 2023.
Að sögn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra, verður þetta stóra skipasumar áskorun fyrir innviði og íbúa Ísafjarðarbæjar. „Undirbúningur sveitarfélagsins fyrir þennan annasama tíma hefur meðal annars falist í því að funda með hagsmunaaðilum, svo sem ferðaþjónum og atvinnurekendum á Ísafjarðarhöfn. Það hefur líka verið unnið að því að finna lausnir á bættum merkingum fyrir gönguleiðir sem beina farþegum út af hafnarsvæðinu og að gefa út uppfærðan upplýsingabækling fyrir gesti,“ segir Arna. „Þá er að sjálfsögðu unnið að stækkun Sundabakka en eins og einhver vita hefur vinna við dýpkun tafist mjög og er ljóst að einhver skip munu vera á akkeri í sumar og flytja farþega í land með svo kölluðum tender-bátum. Samhliða stækkuninni er vinna við nýtt skipulag hafnarsvæðisins í gangi.“
Komur skemmtiferðaskipa skipta öllu máli fyrir rekstur hafna Ísafjarðarbæjar en tekjur af komum skemmtiferðaskipa eru um helmingurinn af heildartekjum hafnarinnar. Án þessara tekna væru hafnirnar reknar með tapi og þyrftu niðurgreiðslu úr bæjarsjóði, eins og kom glögglega í ljós þegar skemmtiskipakomur féllu nær allar niður vegna heimsfaraldurs COVID-19.