Samstarfssamningur um barnavernd framlengdur
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á 498. fundi sínum viðauka við samning Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkurkaupstaðar og Súðavíkurhrepps um meðferð barnaverndarmála og kosningu í barnaverndarnefnd, en samningurinn gildir til 31. desember 2022 samkvæmt viðaukanum.
Ísafjarðarbær hefur átt í samstarfi við Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp um barnaverndarmál allt frá árinu 2002. Framundan eru breytingar á uppbyggingu barnaverndar innan sveitarfélaga, eins og fram hefur komið, samkvæmt breyttum barnaverndarlögum sem samþykkt voru á Alþingi árið 2021. Barnaverndarnefndir í núverandi mynd verða lagðar niður og meginábyrgð daglegra verkefna barnaverndar falin barnaverndarþjónustu. Komið verður á fót umdæmisráðum barnaverndar, sem fara með úrskurðarvald í ákveðnum barnaverndarmálum þar sem mest reynir á faglega þekkingu. Bæjarstjórn hefur samþykkt að Ísafjarðarbær verði aðili að sameiginlegu umdæmisráði barnaverndar á landsbyggðinni.
Fyrrnefnd lög áttu að taka gildi við upphaf árs 2022 og því var samstarfssamningi Ísafjarðarbæjar við Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp sagt upp fyrir ári síðan, með sex mánaða uppsagnarfresti. Gildistöku laganna var síðar frestað til 1. janúar 2023 og því var ákveðið að framlengja samninginn með viðaukanum sem samþykktur var af bæjarstjórn.
Viðauki við samning um meðferð barnaverndarmála og kosningu í barnaverndarnefnd