Samstarfssamningur milli slökkviliða Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar
Áform eru uppi um að auka samstarf Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar og Slökkviliðs Bolungarvíkurkaupstaðar og voru þau kynnt á 1181. fundi bæjarráðs sem fram fór þann 20. desember.
Í minnisblaði Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, kemur fram að Bolungarvíkurkaupstaður hafi óskað eftir samstarfi við Ísafjarðarbæ á sviði brunavarna. Samkvæmt minnisblaðinu mun samstarfið meðal annars felast í því að slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar verði jafnframt slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Bolungarvíkur, en yfirumsjón með slökkviliðinu í Bolungarvík verður í samvinnu við varðstjóra sem staðsettur er í Bolungarvík. Þá verða slökkviliðin, ásamt starfsemi slökkvistöðva þ.e. húsnæðis, bíla og búnaðar, áfram aðskilin.
Slökkviliðsstjóri Ísafjarðarbæjar skipuleggur og ber ábyrgð á eldvarnareftirliti í Bolungarvík og skipuleggur mönnun og æfingar slökkviliðanna.
Ráðgert er að samningur um kostnað og nánari útfærslur verði frágenginn snemma árs 2022.
Áður hafa verið gerðir samstarfssamningar milli Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar og Slökkviliðs ISAVIA á Ísafjarðarflugvelli annars vegar og Slökkviliðs Súðavíkurhrepps hins vegar.