Samningur við Kómedíuleikhúsið endurnýjaður
10.02.2021
Fréttir
Elfar Logi Hannesson og Birgir Gunnarsson við undirritun samningsins.
10. febrúar var samstarfssamningur Ísafjarðarbæjar og Kómedíuleikhússins undirritaður, en bæjarstjórn staðfesti samninginn á 470. fundi sínum þann 4. febrúar. Markmið samningsins er að efla og glæða áhuga bæjarbúa á leiklist og auðga menningarlíf í Ísafjarðarbæ, auk þess að styrkja eina atvinnuleikhús Vestfjarða. Samningurinn er til tveggja ára og er endurnýjun á fyrri samningi milli sveitarfélagsins og leikhússins sem var í gildi 2019 og 2020.
Samkvæmt upplýsingum frá leikhússtjóranum, Elfari Loga Hannessyni, er næst á dagskrá hjá leikhúsinu að setja á svið brúðuleikrit um Bakkabræður, auk þess sem sýningarnar um Gísla frá Uppsölum og nafna hans Súrsson verða aftur í boði í sumar.