Samningur um sérhæfða velferðarþjónustu á Vestfjörðum undirritaður

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri, ásamt stjórnendum sjö annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum, hefur undirritað samning um sameiginlegan rekstur sérhæfðrar velferðarþjónustu á svæðinu. Von er á að Strandabyggð bætist í hópinn áður en langt um líður.

Samningurinn var undirritaður á Fjórðungsþingi Vestfirðinga á föstudaginn en það var einmitt á Fjórðungsþingi síðasta árs sem vinna hófst við að kanna grundvöll þess að setja á stofn samþætta þjónustu innan Vestfjarða, sem hefði með höndum þjónustu við fatlað fólk, barnaverndarþjónustu og samræmda móttöku flóttafólks.

Ísafjarðarbær er leiðandi sveitarfélag samkvæmt samningnum og gefa hin sveitarfélögin honum vald til ákvarðanatöku í málaflokknum. Almenn velferðarþjónusta verður þó áfram rekin hjá sveitarfélögunum og skiptist niður á fjögur velferðarsvæði. Á norðursvæðinu verða þau tvö; annars vegar Ísafjarðarbær og Súðavík og hins vegar Bolungarvíkurkaupstaður, Á Ströndum mynda Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Reykhólahreppur og Strandabyggð sameiginlega velferðarþjónustu og á suðursvæðinu er það Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur. Samningurinn gildir til eins árs.

Sjá einnig: Velferðarþjónusta Vestfirðinga: Niðurstöður starfsfhóps