Samningur um að gera upp Ágústu ÍS 65 undirritaður
Nýlega var undirritaður samningur milli Ísafjarðarbæjar og hollvinasamtaka Ágústu ÍS 65 um að gera upp bátinn Ágústu, sem lengi hefur verið leiktæki á Sumarróló á Suðureyri.
Ágústa ÍS 65 var smíðuð af Hólmbergi Arasyni fyrir 60 árum síðan og er síðasti trébáturinn sem smíðaður var á Suðureyri. Undanfarin ár hefur ástand bátsins verið slæmt og ekki uppfyllt skilyrði reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða.
Samkvæmt samningnum munu hollvinasamtökin sjá um að skipuleggja og vinna að endurbótum sem snúa að því að gera bátinn hættulausan svo fljótt sem verða má í samráði við heilbrigðiseftirlit, t.d. með því að loka götum í gólfi/þilfari og festa lausar spýtur í lunningu og byrðingi, taka þrep upp á stýrishús og takmarka klifur upp á stýrishús, skipta út ónýtu timbri og minnka fallhættu. Ísafjarðarbær leggur til 1.950.000 kr. til verksins auk timburs í eigu sveitarfélagsins. Fjárhæðin greiðist út í tvennu lagi, helmingur 1. júlí 2024 og helmingur við verklok 2025.
Að viðgerð lokinni, verður Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða kallað til til úttektar á verkinu. Dugi viðgerðin ekki, skuldbinda Hollvinasamtökin sig til að framkvæma það sem upp á vantar án aðkomu Ísafjarðarbæjar. Þegar samþykki heilbrigðiseftirlits liggur fyrir mun Ísafjarðarbær sækja að nýju um undanþágu fyrir bátinn til Umhverfisstofnunar. Þegar hún liggur fyrir afhenda Hollvinasamtökin bænum bátinn aftur og verður hann áfram eign Ísafjarðarbæjar eins og önnur tæki á leikvellinum. Verði kröfum heilbrigðiseftirlits ekki fullnægt 1. júlí 2025 verður báturinn fjarlægður og nýtt tæki keypt í staðinn árið 2026.