Vegna boðaðs verkfalls aðildarfélaga BSRB
Félagar í stéttarfélaginu Kili sem starfa í leikskólum og á bæjarskrifstofu Ísafjarðarbæjar hafa boðað til verkfalls frá og með 5. júní 2023 en Kjölur er aðildarfélag innan BSRB.
Viðbúið er að starfsemi leikskólanna skerðist töluvert fyrir vikið, fyrir utan á Grænagarði á Flateyri þar sem ekkert starfsfólk er skráð í Kjöl. Þjónusta á bæjarskrifstofum skerðist að mestu innanhúss og til stofnana bæjarins og ættu íbúar því ekki að finna jafn mikið fyrir því.
Leikskólastjórar hafa beint samband við foreldra og forráðamenn varðandi útfærslu skólastarfs komi til verkfalls og gera má ráð fyrir því að börn þurfi að vera heima að minnsta kosti hluta úr degi á meðan á verkfallinu stendur. Eru foreldrar jafnframt hvattir til að fylgjast með framvindu málsins í fjölmiðlum næstu daga.
Leikskóla- og fæðisgjöld barna falla niður þann tíma sem börnin geta ekki mætt í skólann vegna verkfallsins. Þetta á við þegar dvalartími barna er skertur og/eða þegar ekki er hægt að bjóða upp á hádegismat. Sá kostnaður verður endurgreiddur til foreldra um næstu mánaðarmót.