Reglur um bæjarlistamann uppfærðar
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti nýjar reglur um útnefningu bæjarlistamanns sveitarfélagsins á 500. fundi sínum þann 20. október.
Helstu breytingar frá fyrri reglum eru að útnefning er með formlegum hætti færð til Veturnátta, sem haldnar eru í október ár hvert. Í fyrri reglum átti útnefning að fara fram á 17. júní en hafði verið vikið frá því um nokkurra ára skeið og bæjarlistamaður t.d. verið útnefndur á einleikjahátíðinni Act Alone sem haldin er í ágúst. Bæjarlistamaður 2022 verður einmitt útnefndur á morgun, laugardaginn 22. október, á opnu húsi í Tónlistarskóla Ísafjarðar, kl. 15:30.
Í 2. gr. nýrri reglna eru nýmæli um tilgang útnefningar og skýrar kveðið á um skyldur þess sem hlýtur nafnbótina, þ.e. að halda einn viðburð á árinu fyrir bæjarbúa.
Í 3. gr. eru þau nýmæli að menningarmálanefnd er ekki bundin af innsendum tilnefningum heldur er nefndinni frjáls útnefning. Þessi regla er í samræmi við reglur annarra sveitarfélaga um bæjarlistamann.