Ræða fjallkonu 2022

Mynd: Haukur Sigurðsson.
Mynd: Haukur Sigurðsson.

Ræða Vaidu Bražiūnaitè, fjallkonu á Ísafirði, þjóðhátíðardaginn 2022.

Væta verður á köflum, og fremur svalt í veðri. 

Lítilsháttar væta í kortunum. 

Víða verður skýjað og dálítil væta öðru hvoru.

-

Væta var einmitt fyrsta íslenska orðið mitt.

Af góðri ástæðu. 

Vaida er nafn sem ég ber frá heimalandi mínu Litháen.

Hefði ég getað beðið um ljúfara nafn hér á landi?

 -

Síðan fylgdu orðin rok og rigning og meira rok.

Sumarhret.    

Él.    

Snjókoma.   

Hríðarveður.   

Mjöll.   

Snær.

Mér var sagt að það væru 85 orð sem lýsa snjó á íslenskri tungu.

Ég var hissa og ekki.

Snjór ofan á snjó.    

Kafafjúk.

Of mikill snjór.

Svo hætti ég að hugsa um snjó – ég var of hrædd við snjóflóð.

-

Svo kom vorið.

Heimur hlýnaði og hjartað mitt líka.

 

Sumarið blómstraði í fífukollum.

Lúpínur - uppáhald fárra 

En augu mín elska fjólubláan. 

Hin dáleiðandi fegurð blómgast dag eftir dag, nótt eftir nótt, 

þangað til hún þreytist.

 

Og augnabliki síðar,

aðalbláber, bláber og krækiber.

​​Haustvísa í horfinni sumarblíðu.

Gult, grænt og rautt - 

eins og litháískur fáni.

 

Heimþrá. Ég uppgötvaði það orð á meðan ég beið eftir næsta byl.

Þrá eftir heimalandinu í eplauppskerunni langt í burtu

 

Ég hugsa oft um rótlausa þangið

Í ljóði Jóhanns Sigurjónssonar

þangið sem horfði á farfuglana, sem hurfu út í himinblámann.

 

Heimþrá virkar í raun og veru á báða vegu.

Hver væri ég í dag án tveggja heima?

Tveir helmingar 

Heimamaður - hinum megin, en ekki lengur.

Útlendingur hér á landi, en ekki alveg.

-

Í tilefni dagsins langar mig til að deila bréfi kæru vinkonu minnar Dariyu Orlovu frá Úkraínu sem ég fékk þann 3 apríl í ár. Í bréfinu stendur:

„Vaida mín kæra, 

Þrátt fyrir eldflaugaárásir og allan hryllinginn þá voru mér færðar langþráðar gjafir. Maðurinn minn náði að fara til Kænugarðs, á heimili okkar, og ná í fatnað og aðrar nauðsynjar. Ég vildi ólm fá hluti að heiman og ná að vökva plönturnar okkar. Hann sagði að Kænugarður liti sorglega út og væri tómleg. Það heyrðust stöðug byssuhljóð, væntanlega frá Bucha-Irpin. En Kænugarður lifir áfram. Og, til marks um töfra, lifðu plönturnar okkar af í mánuð án vatns.

Þegar ég opnaði ferðatöskurnar fullar af dóti að heiman, leið mér eins og að ég væri að finna einhvern týndan fjársjóð: fjölskyldumyndaalbúm og silkitrefil. Trefillinn minn segir eitthvað um þetta stríð. Á honum er mynd af mjög algengum, mjög kunnuglegum blómum sem þekja úkraínska akra, úkraínskt land á sumrin. Svo kunnuglegum að þú áttar þig ekki á því hversu mikið þú elskar þau fyrr en þú ert nálægt því að missa þau. Þetta er svipað og tilfinningar mínar til stríðsins. Þetta stríð snýst um að verja það sem þú elskar. Svo einfalt er það. Það snýst fyrst og fremst um að enduruppgötvaða og staðfesta ást.

Hlýjar kveðjur, Darya”

Þetta eru raddirnar sem eiga að óma

Hver rödd er þess virði

Raddirnar um að missa heimili

Raddirnar um að finna heimili

Það er ekki sjálfgefið að eiga heimili.

Hvernig vökvum við blóm í auga stormsins?

Kæru Ísfirðingar, 

Til hamingju með daginn!