Opinn fundur Persónuverndar í Edinborgarhúsi
Persónuvernd heldur opinn kynningarfund í Edinborgarhúsinu á Ísafirði milli klukkan 13 og 15 á fimmtudag. Fundurinn er hluti af fundarröð Persónuverndar um land allt. Allir eru velkomnir á fundina, en það er vel þegið ef fólk skráir sig á þá fyrirfram svo auðveldara sé að átta sig á þeim fjölda sem mætir. Það er gert á slóðinni https://www.personuvernd.is/fundarod
Á kynningarfundum Persónuverndar verður meðal annars farið yfir grunnreglur persónuverndarlöggjafarinnar sem allir þurfa að kunna skil á. Persónuvernd hvetur því atvinnurekendur til að gera starfsmönnum sínum kleift að mæta.
Ný persónuverndarlöggjöf, byggð á reglugerð Evrópusambandsins, tók gildi hérlendis 15. júlí síðastliðinn en löggjöfin markar tímamót í sögu persónuverndarlöggjafar í Evrópu. Af því tilefni heldur Persónuvernd í kynningarherferð um landið þar sem áhugasömum verður boðið að sækja kynningarfundi um nýju löggjöfina. Sérstaklega verður fjallað um það hvaða þýðingu löggjöfin hefur fyrir einstaklinga og réttindi þeirra, og þær kröfur sem hún gerir til fyrirtækja, stjórnvalda og annarra ábyrgðaraðila.
Erindi flytja Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, Vigdís Eva Líndal, skrifstofustjóri upplýsingaöryggis hjá Persónuvernd, og Þórður Sveinsson, skrifstofustjóri lögfræðisviðs hjá Persónuvernd.